
-
Að snúa rassinum að manni er friðsæl og róandi hegðun frá hundi. Hundurinn er að sýna okkur vinsemd. Með því að snúa bakhlutanum að okkur er hundurinn að sýna að hann meinar ekkert illt, hann ætlar ekki að ráðast á okkur eða sýna grimmd. Á sama tíma er hundurinn að segja að hann treystir okkur.
Þegar hundar eru paraðir saman sýna þeir svipaða hegðun en þá snýr rakkinn bakhlutanum að tíkinni.
Roger Abrantes sagði frá þessari hegðun í fyrstu útgáfu bókarinnar Dog Language sem kom út árið 1987. Hann lýsti þessari hegðun eftir að hafa eytt mörgum árum í að fylgjast með og mynda hegðun hunda, úlfa og refa. Lítill munur reyndist vera á milli hunda og úlfa þegar kom að þessari hegðun en refurinn hagar sér á annan hátt, líklega því hann er ekki jafn félagslyndur og hinir tveir.
Eins og gefur að skilja geta hundar líka lært á okkur mannfólkið. Þeir læra að þegar þeir ota rassinum að okkur græða þeir notalegt nudd og klór. Það má því einnig útskýra þessa hegðun með reynslu hundanna og því námi sem fylgir. Þeir sækjast í það sem er gott og gera þetta því oftar ef manneskjan bregst við með því að klóra þeim.