Krabbameinsfrumur

Nýleg rannsókn sýnir fram á að þjálfaðir hundar gátu fundið blöðruhálskirtilskrabbamein með 98 prósenta nákvæmni með því að þefa af þvagi. Tvær þriggja ára tíkur, af þýskri fjárhundategund, voru á Ítalíu þjálfaðar með jákvæðri styrkingu til þess að þekkja blöðruhálskirtilskrabbamein – sérstök rokgjörn lífræn efnasambönd. Hundarnir greindu fleiri en 400 þvagsýni . Annar hundurinn greindi blöðruhálskirtilskrabbamein með 100% nákvæmni á meðan hinn hundurinn greindi það með 98,6% nákvæmni. Blöðruhálskirtilskrabbamein er hins vegar ekki eina tegund krabbameins sem krabbameinsleitarhundar geta þefað uppi. Sýnt hefur verið fram á að nef besta vinar mannsins getur einnig þefað uppi krabbamein í brjóstum, eggjastokkum, ristli, þvagblöðru, lungum og á húð, yfirleitt með því að þefa af andardrætti fólks.
Krabbamein veldur því að líkaminn losar út ákveðin lífræn efnasambönd sem hundar finna lykt af en ekki mannfólk. Vísindamenn vonast til þess að rannsóknir á því geti einn daginn orðið til þess að hægt sé að þróa nokkurs konar „tölvunef“ sem geti fundið krabbamein, líkt og hundar geta gert. Með allt að 300 milljón lyktarskynfrumur í trýnum sínum, miðað við aðeins um 6 milljón í nefum manna, er talið að lyktarskyn hunda sé allt að milljón sinnum betra en okkar mannanna.
Í viðbót við vísindalegar rannsóknir eru einnig þónokkrar sögur hundaeigenda um hvernig hundurinn þeirra fann krabbamein. Margir hundaeigendur segja frá því hvernig hundurinn þeirra var stöðugt að þefa af og koma við svæði á líkama þeirra sem seinna kom í ljós að hafði æxli.
Ein af þessum hundaeigendum er Maureen Burns en 9 ára collie-blendingurinn hennar, Max, byrjaði að haga sér undarlega. Hann var stöðugt að þefa af brjósti hennar, bakka svo og horfa í augun á hennar með “döprum augum”, eins og hún lýsir því.
Maureen Burns var með lítið æxli í brjóstinu. Hún hafði farið í myndatöku til þess að athuga með æxli í brjósti en myndin sýndi ekkert. Undarleg hegðun Max hélt áfram og varð til þess að Maureen fór aftur til læknis og óskaði eftir að tekið yrði sýni. Kom það læknunum á óvart þegar kom í ljós krabbameinsæxli.