Áður en kötturinn kemur á heimilið:

Áður en þú tekur ákvörðun um að bæta ketti við heimili þar sem hundur býr fyrir, er mikilvægt að skoða fyrri sögu hundsins og skoða hvernig umgengni hans við ketti hefur verið. Hefur hundurinn hitt kött? Hvernig gekk það? Er þetta fullorðinn hundur sem hefur aldrei hitt kött?

Ef í ljós kemur að hundurinn hefur enga fyrri reynslu af köttum er mjög mikilvægt að skoða fyrri sögu þá katta sem í boði er að taka að sér. Því næst er hægt að fá kött í prufu til að kanna viðbrögð hundsins sem er fyrir á heimilinu.

Hundar sem hafa ekki verið vandir við ketti frá upphafi, og sérstaklega hundar sem hafa ekki fengið góða almenna umhverifsþjálfun, eru líklegir til að taka köttum annað hvort eins og öðrum hundum eða sem bráð. Þetta þýðir að þeir munu bjóða kettinum upp á leik, þeir munu rannsaka þá gaumgæfilega, stara á þá eða elta þá. Stundum gera þeir alla þessa hluti en það fer mikið eftir viðbrögðum kattarins.

Ef hundurinn þinn er blíður, afslappaður og vinalegur ásamt því að vera ekki með mikið veiðieðli (eltir ekki fugla, ketti eða kanínur í göngutúrum) eru góðar líkur á að hann muni taka ketti vel. Hundar með sterkt veiðieðli eru mun líklegri til að verða stressaðir í návist katta og í þeim tilfellum er nauðsynlegt að aðskilja hundinn frá kettinum öllum stundum. Veiðieðli er ekki eitthvað sem þú þjálfar auðveldlega úr hundi (og í rauninni er varla hægt að þjálfa það úr hundum þó svo að hægt sé að þjálfa upp góða hlýðni).

Þegar þú kynnir hund fyrir ketti í fyrsta skipti skaltu hafa hundinn í taum, til að koma í veg fyrir að gera köttinn of hræddan ef hundurinn skyldi reyna að elta hann. Best er að kynna hund fyrir ketti sem er nú þegar vanur hundum. Það eru minnir líkur á að vanur köttur flýji eða verði hræddur þó svo að viðbrögð hundsins verði ekki góð. Það er gott láta hundinn hitta sama köttinn nokkrum sinnum. Merki sem gefa til kynna að það gangi vel að kynna hundinn og köttinn eru t.d. að hundurinn sé með afslappaðan líkama, dilli skottinu og að hundurinn bakki frá kettinum (sýni virðingu) ef kötturinn sýnir varnarmerki. Það sem gefur til kynna að það gangi ekki vel er hins vegar ef hundurinn reynir að elta köttinn, hundurinn togar ítrekað og fast í tauminn, vælir, geltir eða sé með annan æsing. Viðbrögð margra hunda eru einhvers staðar þarna á milli, sem getur gert það erfitt fyrir eigandann að átta sig á hvernig gengur.

Stundum, með mikilli þolinmæði og þrjósku, er hægt að kenna hundum með sterkt veiðieðli strangar reglur um hvað má og hvað má ekki á heimili með ketti. Þetta er flókið og virkar ekki í öllum tilfellum. Hundar sem sýna ekki mjög ýkt viðbrögð eru líklegri til að læra þetta. Það er mikilvægt að átta sig á því að sumir hundar slasa eða drepa ketti. Það eru mestar líkur á að það gerist þegar veiðihundar eru í hóp. Það er líka mikilvægt að átta sig á að flestir hundar sem elta ketti eru ekki að reyna að ná þeim til að drepa þá. Margir hundar gera ekkert ef þeir ná ketti sem þeir hafa elt uppi. Það getur hins vegar verið mjög erfitt fyrir kött að lenda í þeirri lífsreynslu. Það þarf líka að hugsa um líðan kattarins.

Eins og hundar, hafa kettir alls kyns skapgerð. Þeir kettir og kettlingar sem henta best á heimili með hundum eru rólegir og yfirvegaðir. Það eru minni líkur á að þeir flýji (sem ýtir undir það að hundar elti). Þegar hundar og kettir ná að halda ró sinni þegar þeir hittast er líklegra að hundarnir myndi félagslegt samband við kettina frekar en að líta á þá sem bráð. Feimnir og hræddir kettir henta yfirleitt ekki vel á heimili með hundum.

Flestir kettir sem hafa aldrei hitt hund áður, munu fara í vörn þegar þeir hitta hund í fyrsta sinn. Þeir munu flýja, slá frá sér, hvæsa eða sýna önnur streitumerki. Ef hundurinn er ekki of ákafur og ef kötturinn hefur hundlausan stað sem hann getur falið sig á, venjast flestir kettir hundinum smám saman og í mörgum tilfellum verða þeir góðir vinir.

Þegar kötturinn er kominn á heimilið:

Hér eru nokkrir punktar til að hjálpa þér ef þú hefur nú þegar tekið þá ákvörðun að bæta ketti við heimilið:

#1: Felustaðir

Hafðu felustað/staði, ásamt upphækkuðum stöðum sem kötturinn getur alltaf nálgast. Hundurinn má ekki komast á þessa staði. Þú getur notað barnahlið, kattahurðir og/eða tæmt hillur. Það er mikilvægt að kötturinn komist alltaf í burtu til að slappa af og safna hugrekki áður en hann prófar aftur að nálgast þetta nýja dýr sem hann hefur aldrei séð áður. Það er eðlilegt að þetta ferli taki langan tíma og það er mikilvægt að leyfa kettinum að nálgast hundinn á sínum eigin hraða. Matar- og vatnsdallar ásamt katttaklósetti ættu að vera á þessum örugga stað, svo kötturinn neyðist aldrei til að nálgast hundinn.

Dog and cat playing together outdoor. Dog and cat of the same color

#2: Ekki þvinga köttinn

Þú skalt aldrei þvinga köttinn til að nálgast hundinn. Ekki halda á kettinum, loka hann í búri eða halda kettinum föstum þannig að hann komist ekki í burtu frá hundinum. Það er stressandi fyrir köttinn og hjálpar engum. Fyrir utan að vera ómannúðlegt er stress algeng ástæða þess að kettir hætta að pissa í kattaklósettið sitt (og byrja t.d. að pissa í sófann eða í rúm)

#3: Notaðu taum

Þegar hundurinn hittir köttinn í fyrsta skipti skaltu hafa hundinn í taum. Þannig geturðu komið í veg fyrir eltingaleik. Ef allt gengur vel geturðu tekið tauminn af hundinum en fylgstu áfram mjög vel með.

#4: Ekki skipta þér of mikið af

Ef allt lítur út fyrir að ganga vel skaltu ekki skipta þér of mikið af samskiptum hundins og kattarins. Hrósaðu þegar vel gengur og verðlaunaðu.

#5: Vertu samt tilbúin(n) að grípa inn í

Stoppaðu eltingaleik um leið og hann byrjar. Hjálpaðu hundinum að hugsa um eitthvað annað, til dæmis með því að bjóða honum róandi verkefni eins og fyllt Kong. Þetta getur verið mjög erfitt svo í framtíðinni gæti verið nauðsynlegt að aðskilja hundinn og köttinn.

#6: Fylgstu með

Fyrstu vikurnar skaltu fylgjast náið með sambandi hundsins og kattarins. Athugaðu sérstaklega hvort þú sjáir mynstur myndast í samskiptum þeirra. Er hegðun þeirra að skána eða versna? Fylgstu með þar til jafnvægi er komið á samskiptin.

#7: Ekki gleyma dýrinu sem var fyrir á heimilinu

Ef hundur var að bætast við á heimilið skaltu gefa kettinum sérstaklega mikla athygli fyrstu vikurnar. Þetta gerirðu til að kötturinn tengi hundinn ekki við minni athygli eða ástúð. Ef köttur var að bætast við heimilið er sömuleiðis sniðugt að tengja nýja fjölskyldumeðliminn við meiri athygli og skemmtilega hluti fyrir hundinn.

#8: Haltu hundinum frá kattaklósettinu

Hundar ættu aldrei að komast í kattaklóssettið. Bæði getur það stressað ketti upp að vita af hundi í klósettinu þeirra en margir hundar elska kattakúk og munu borða hann. Margir hundar borða einnig kattamat sem kettirnir skilja eftir í skálinni sinni. Af þeirri ástæðu er sniðugt að geyma matardalla kattarins á stað sem hundurinn nær ekki til (t.d. uppi á borði eða hillu).

Birt með leyfi Jean Donaldson


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.