Heitt veður getur verið áskorun fyrir hundaeigendur og þá sérstaklega þá sem eiga hunda með stutt trýni (bulldog, boxer, shih tzu, pug, boston terrier og fleiri). Vegna lögun hauskúpunnar og þess hve stutt trýni þeirra er, er geta þessara hunda til að anda að sér lofti takmörkuð. Tegundir með stutt trýni eru því viðkvæmari fyrir vandamálum sem rekja má til ofhitnunar. Dæmi um það er hitakast sem getur verið lífshættulegt fyrir hunda.

Einkenni ofhitnunar eru (hundurinn þarf ekki að sýna öll einkenni):

  • Rauðir gómar
  • Hundurinn ælir
  • Þykk slímhimna
  • Mæði
  • Mikið slef
  • Ofþornun (ef þú lyftir húðinni upp er hún lengi að fara til baka)
  • Hiti
  • Sjokk
  • Óreglulegur hjartsláttur
  • Öndunarerfiðleikar
  • Svartar, tjörukenndar hægðir
  • Vöðvaskjálfti
  • Undarlegt göngulag
  • Meðvitundarleysi

Það eru ekki aðeins hundar með stutt trýni sem geta ofhitnað í heitu veðri og því er gott fyrir alla hundaeigendur að fara eftir þessum sjö ráðum á meðan heitt er í veðri.

Ekki geyma hundinn í bílnum

Hundar eru fljótir að ofhitna þegar þeir eru geymdir í bíl á heitum dögum. Skildu hundinn frekar eftir heima þegar það er mjög heitt úti. Ef það er mjög heitt er ekki nóg að leggja í skugga og að skilja eftir opna glugga. Ef þú metur hitann þannig að það sé ekki of mikill hiti til að geyma hundinn í bílnum skaltu alltaf leggja í skugga, hafa alla glugga opna og stilla bílnum þannig upp að það blási á hlið bílsins (svo það myndist gegnumtrekkur). Hafðu vatn hjá hundinum og ekki skilja hann eftir lengi í bílnum. Sólin getur færst til mjög hratt.

Gefðu hundinum mikið af fersku, hreinu vatni að drekka

Gættu þess að hundurinn komist alltaf í kalt vatn svo hann geti kælt sig niður. Ef hann eyðir miklum tíma úti, til dæmis í garðinum, skaltu passa að það sé vatn þar líka. Geymdu vatnsdallinn í skugga svo vatnið haldist kalt. Taktu vatn með í göngutúra svo hundurinn geti kælt sig niður eftir hlaup.

Haltu hundinum innandyra

Ef það er mjög heitt úti skaltu halda hundinum innandyra á meðan sólin er sem sterkust. Ef þú vilt leyfa hundinum að vera úti skaltu hafa aðstöðu hundsins þannig að hann komist inn. Ef hundurinn er lengi úti í miklum hita eru líkur á vandamálum sem tengjast ofhitnun.

Notaðu kælimottur, viftur eða loftræstingu

Það er hægt að fá sérstakar kælimottur fyrir hunda í netverslunum. Þú getur einnig búið til þína eigin kælimottu með því að frysta vatn í flösku og vefja hana innan í handklæði. Settu flöskuna svo í hundabælið. Hundurinn getur þá kælt sig niður á mottunni og slappað af í góða veðrinu. Það hjálpar einnig mikið að láta viftu blása á hundinn. Þegar þið eruð í bílnum er gott að kveikja á loftræstingunni.

Útvegaðu barnasundlaug handa hundinum

Margir hundaeigendur kaupa barnasundlaugar handa hundunum sínum á sumrin. Þetta getur verið allt frá sterklegum uppblásum laugum í plastsandkassa sem þú fyllir með vatni. Hafðu laugina í skugga svo vatnið haldist kalt.

Aðlagaðu hreyfingu hundsins að hitastiginu

Það er algjör óþarfi að hætta að hreyfa hundinn þó svo að heitt sé í veðri. Farið í göngutúr snemma á morgnanna eða seinni part dags þegar mesti hitinn er farinn.

Taktu reglulega pásu

Gættu þess að taka reglulega pásu þegar þú ert í göngutúr með hundinum þínum. Þegar andardráttur hundsins er orðinn þungur eða hundurinn orðinn mjög móður er komin tími fyrir pásu. Hundar ofhitna mun hraðar en menn og því þarf að huga vel að þessu. Sumir hundar þola ekki meira en örfáar mínútur þegar heitt er í veðri. Taktu með vatnsflösku og fáið ykkur vatnssopa í pásum.  

Þýtt og birt með leyfi http://www.moderndoggroup.com/

 


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.