Langtímamarkmið:

Ef hundurinn þinn er hræddur á áramótunum er gagnlegast að nýta allt árið í þjálfun. Spilaðu flugeldahljóð smám saman hærra og hærra og vendu hundinn við alls kyns hljóð. Gefðu hundinum nammi strax eftir að hljóðin byrja. Farðu með hann á nýja staði og tengdu nýja upplifun við nammi og vellíðan. Umhverfisþjálfun gerir hunda almennt betri í að takast á við erfiðar tilfinningar.

Dagarnir/vikurnar fyrir áramót:

Margir byrja að sprengja dagana fyrir áramót og sumir hundar verða hræddir við það. Vertu tilbúin(n) með box af þurru nammi. Í hvert skipti sem það kemur hávær sprengja skaltu kasta fullri lúku af nammi á gólfið. Þegar nammið er þurrt skýst það um öll gólf með látum. Þetta finnst flestum hundum mjög skemmtilegt og með tímanum byrja þeir að búast við nammi þegar sprengjuhljóðin heyrast í stað þess að vera hræddir. Önnur leið er að gefa hundinum skemmtilegt verkefnieins og að ná nammi úr Kong, á meðan það eru læti úti. Þannig getum við kennt honum að slaka á í erfiðum aðstæðum.

Hægt er að fá róandi fóður fyrir hunda sem heitir Royal Canin Calm. Gott er að byrja að gefa fóðrið í byrjun desember en flestir tala um að finna mun eftir nokkra daga. Við mælum með að hafa hundana á þessu fóðri fram yfir þrettándann.

Adaptil er róandi lyktarhormón sem hægt er að fá sem innstungu, sprey eða hálsól. Adaptil hefur verið rannsakað ítarlega þar sem sýnt hefur verið fram á jákvæð áhrif þess á hunda. Sambærileg vara fyrir ketti er Feliway. Pet Remedy er með remedíum sem virka róandi á öll dýr. Það er hægt að fá innstungu og sprey. Það er gott að byrja að nota Adaptil/Pet Remedy nokkrum vikum (eða a.m.k. dögum) fyrir áramót.

Thundershirt er vesti/vafningur sem hjálpar hundum að slaka á í erfiðum aðstæðum. Rannsóknir sýna að þau virka á um 80% hunda.

Allar þessar vörur fást hjá Dýralæknamiðstöðinni Grafarholti.

Á gamlárskvöld:

Fyrsta skref er að gæta fyllsta öryggis. Hafið alla glugga lokaða og læsið hurðum. Ef það koma gestir í heimsókn, minnið þá á að loka hurðum strax svo hundurinn geti ekki laumað sér út. Ef það er mikið ráp á fólki er best að hafa hlið eða annað sem hundurnin kemst ekki í gegnum. Það er líka hægt að hafa hundinn fastan í taum. Ekki fara með hundinn á brennur eða út að skjóta upp flugeldum.

Ef þið mögulega getið komist hjá því, ekki skilja hundinn eftir einan á áramótunum.

Ef hundurinn treystir sér út er gott að fara í langan göngutúr á meðan bjart er úti. Ekki sleppa hundinum lausum nema keyra út fyrir bæinn. Hægt er að hafa hundinn í langri línu svo hann fái góða hreyfingu.

Gefið hundinum vel að borða og gætið þess að hann sé búinn að pissa og kúka áður en lætin byrja. Um kvöldið er svo sniðugt að nýta áramótaskaupið til að hleypa hundinum út að pissa, þá er yfirleitt ekki mikið sprengt.

Lykt og ljósblossar spila oft mikið inn í hræðslu hundanna. Því er gott að hafa alla glugga lokaða og draga fyrir með þykkum gluggatjöldum. Hægt er að breiða þykk teppi yfir glugga ef gluggatjöld eru of þunn.

Hundar vilja vera hjá eigendum sínum þegar þeir eru hræddir. Ekki loka þá eina inni í herbergi. Það getur þó verið sniðugt að útbúa eitt herbergi fyrir áramótin en þá þarf að skiptast á að vera hjá hundinum. Hafið ljósin kveikt, lokað fyrir glugga, þykk gluggatjöld og tónlist. Ef þið neyðist til að skilja hundinn eftir einan heima á áramótunum skuluð þið hafa hann í svona rými. Hægt er að finna róandi tónlist fyrir hunda á síðum eins og Youtube. Öll tónlist hjálpar þó þar sem hún felur hljóðin sem koma frá flugeldunum. Hafið tónlistina hátt stillta.

Verið róleg í kringum hundinn og sýnið honum stuðning. Þið ýtið ekki undið hræðslu hundsins með því að klappa honum eða vera hjá honum þegar hann er hræddur. Gætið þess samt að tala ekki við hann eins og þið séuð í miðri heimstyrjöld, það gæti ýtt undir ótta hans. Ef hundinum bregður skuluð þið láta eins og ekkert sé. Ef hundurinn vill fela sig (t.d. undir rúmi) skaltu leyfa honum það, en vertu þó nálægt honum og láttu hann vita af því.

Verið tilbúin með skemmtileg verkefni fyrir hundinn eins og fyllt Kong, gott nagbein eða heilaþrautir. Verkefnin hjálpa hundinum að hugsa um eitthvað annað ásamt því að þreyta hundinn.

Ef þú ert með tvo hunda eða fleiri saman getur hræddur hundur smitað annan hund (sérstaklega ef hann er yngri) af hræðsunni. Þannig hunda væri sniðugt að hafa á sitthvorum staðnum. Ekki láta hvolp vera með hræddum fullorðnum hundi á áramótunum. Hundur sem er mjög yfirvegaður á áramótunum getur hins vegar haft mjög jákvæð áhrif á hræddan hund og sýnt honum að þetta sé ekkert til að vera hræddur við.

Sumir hundar þurfa lyf til að ná að slaka á á áramótunum. Miklar breytingar hafa verið á róandi lyfjum fyrir hunda síðastliðin ár og nú er hægt að fá lyf sem hafa ekki sljóvgandi áhrif. Hundar sem hafa fengið róandi lyf mega ekki vera einir heima. Hafið tímanlega samband við dýralækni ef þið teljið hundinn ykkar þurfa lyf.


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.