Flestir hafa, á einhverjum tímapunkti, kennt gelgjuskeiði um þegar unglingar upplifa miklar og sterkar tilfinningar og þegar hegðun þeirra breytist að einhverju leyti. En hvað með hundana? Geta þeir líka farið á gelgjuskeið eða er þetta bara óþekkt? Gæti verið eitthvað líffræðilegt bakvið það að margir hundar virðast vera krefjandi á ákveðnu aldurstímabili?

Ný rannsókn sem birtist í Biology Letters 13. maí, sýnir að við 8 mánaða aldur breytist hormónastarfsemi hunda, líkt og hjá mennskum táningum. Höfundar rannsóknarinnar eru Lucy Asher, Gary C. W. England, Rebecca Sommerville og Naomi D. Harvey.

Rannsóknin náði til 70 kvenkyns leiðsöguhunda í þjálfun. Tíkurnar voru þýskir fjárhundar, Golden Retriver, Labrador Retriver og blöndur af þessum tegundum. Sérstaklega var horft til tengslamyndunar hundanna við eigendur sína og möguleg áhrif gelgjuskeiðs á þau tengsl og samskipti hundanna við eigendur sína og aðra.

Það kemur líklega fáum á óvart að sýnt var fram á meiri óhlýðni við 8 mánaða aldur en við 5 mánaða aldur.

Dr. Lucy Asher, ein af höfundum rannsóknarinnar, kennir „Precision Animal Science“ við Newcastle University School of Natural and Envionmental Sciences.

Rannsakendur bentu á mikilvægi þess að þessar hegðunarbreytingar líða hjá, þar sem algengt er að fólk losi sig frekar við hunda á þessum aldri þar sem þeir hætta að vera sætir litlir hvolpar og fólki finnst það vera að missa stjórn á hundinum. Eigendur þurfa að vita að hvolpurinn er að ganga í gegn um erfitt tímabil og að það líður hjá.

Hundar sem áttu erfitt með að tengjast eiganda sínum sýndu meiri óhlýðni en þeir hundar sem höfðu góða tengingu við eiganda sinn. Tengslarof á þessum aldri gat haft slæmar afleiðingar fyrir hundinn, til dæmis byrjuðu tíkur, sem áttu erfitt með að tengjast fólkinu sínu eða voru stressaðar almennt, fyrr á lóðaríi.

„This is when dogs are often rehomed because they are no longer a cute little puppy and suddenly, their owners find they are more challenging, and they can no longer control them or train them. But as with human teenage children, owners need to be aware that their dog is going through a phase and it will pass.“

Dr, Lucy Asher
Tengslamyndun er mikilvæg bæði hundum og mannfólki á „unglingsárunum“.

Margir hafa lengi vitað, eða grunað, að hundar verða erfiðari á gelgjutímabilinu. Til þess hafi þó ekki verið hægt að vísa í gögn því til sönnunnar. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að hegðun hundanna svipi til hegðunar unglinga í sambandi milli foreldra og barna, þar sem hegðun hundsins virðist beinast að þeim aðila sem sér mest um hann. Það er vel þekkt að börn og unglingar sýni helst sterkar tilfinningar í kringum þann aðila sem þeir treysta mest. Það sama virðist þannig eiga við um hunda.

Þetta sýnir enn og aftur mikilvægi þess að skamma hunda ekki ítrekað fyrir óhlýðni og draga þannig úr tengslamyndun á meðan á þessu tímabili stendur. Það er líklegt til að gera hegðunina verri, eins og þekkist hjá mennskum táningum. Kynnið ykkur jákvæðar þjálfunaraðferðir og hjálpið þannig hundinum í gegnum þetta tímabil. Styrkið þær æfingar sem þið hafið æft hingað til, frekar en að reyna að kenna eitthvað nýtt. Verðlaunið hundinn þegar hann gerir rétt og beinið honum á rétta braut þegar hann gerir rangt.

Ef hegðun hundsins er slæm er svo alltaf góð hugmynd að hafa samband við hundaþjálfara sem notast við jákvæðar þjálfunaraðferðir og fá stuðning gegnum þetta tímabil.

Heimildir:

https://royalsocietypublishing.org/doi/10.1098/rsbl.2020.0097


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.