Georgíu-fylki í Bandaríkjunum var að bætast í hóp yfirvalda sem gefa kaffihúsaeigendum sjálfval um hvort hundar séu leyfðir á kaffihúsunum. Reglur um hunda og kaffihús hafa hingað til verið svipuð í Georgíu og á Íslandi en á dögunum samþykkti heilbrigðiseftirlitið þar að leyfa kaffihúsaeigendum að ráða hvort hundar séu leyfðir á útisvæðunum. Hundaeigendur þurfa að fylgja mjög einföldum reglum, það er að hafa hundana í taum og þeir mega ekki komast í beina snertingu við þjóna, aðra viðskiptavini, diska og hnífapör. Svipaðar reglur eru nú þegar í gildi í New York og Kaliforníu.

Vandamálið hérlendis er að ríkið setur sveitarfélögum skorður.

Málið var rætt í borgarstjórn og borin fram tillaga um að borgarstjórnin sammæltist í því að beina því til ríkisvaldsins að sveitarfélögunum væri í sjálfsvald sett hvernig haga ætti reglum um hollustuhætti og matvæli. Þessi tillaga var samþykkt í maí í fyrra, en Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir sátu hjá í kosningunni. Guðfinna Jóhanna kallaði tillöguna krúttlega í viðtali stuttu eftir kosninguna.

Þrátt fyrir að tillagan hafi verið samþykkt hefur enn ekkert bólað á breytingum eða pressu frá núverandi borgarstjórn til ríkisvaldsins. Það er kominn tími á að þessi krúttlega tillaga fái rödd innan ríkisvaldsins og bannið í reglugerðinni um hollustuhætti verði endurskoðað.


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.