Matvælastofnun sendi í gær út tilkynningu um nýtt tilfelli af brúna hundamítlinum. Þetta er í annað sinn sem brúni hundamítillinn er greindur á þessu ári, en þar á undan hafði hann ekki greinst frá árinu 2010.
Brúni hundamítillinn (Rhipicephalus sanguineus) nærist helst á hundum en getur lagst á önnur spendýr, svo sem nagdýr. Hann er eini mítillinn sem getur farið í gegnum allan lífsferilinn innanhúss og getur því fundist allt árið um kring. Um 5% mítlana eru til staðar á hundinum, en um 95% eru í umhverfinu. Mítillinn getur lifað í 3-5 mánuði á hverju þroskastigi í upphituðu húsi án þess að fá næringu.
Erlendis á brúni hundamítillinn það til að bera smitefni sem veldur sjúkdómum í hundum. Hann getur einnig borið bakteríu sem getur valdið sjúkdómi í fólki. Sem betur fer hefur þetta ekki greinst í mítlunum sem fundist hafa á Íslandi en full ástæða er til að hafa varann á.
Meindýr eins og brúni hundamítillinn geta borist með fólki og farangri þess, sér í lagi því sem hefur verið í snertingu við dýr eða nálægt dýrum. Matvælastofnun vekur athygli á mikilvægi þess að gæta smitvarna og reyna eins og kostur er að bera ekki smitefni með sér til landsins, t.d. með því að þvo allan fatnað og annað sem hefur verið í snertingu við dýr, hreinsa öll óhreinindi af skóm, þvo þá, þurrka og sótthreinsa.
Mælt er með að senda alla hundamítla sem finnast á Íslandi til greiningar á Keldum. Sömuleiðis skal tilkynna slíka fundi til Matvælastofnunar. Ljósmynd: Karl Skírnisson og Matthías Eydal hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum]]>