Gjaldskrár næsta árs liggja nú fyrir en borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti þær í gær. Hundaeigendur í Reykjavík verða ekki ánægðir að heyra að á næsta ári munu hundaleyfisgjöldin hækka um 4,8%, úr 18.900 krónum í 19.800 krónur. Skráning eftir útrunninn frest hækkar um 4,7% og fer því úr 28.859 krónum í 30.200 krónur.

Hundaeigendur geta fengið 50% afslátt af hundaleyfisgjöldum á Höfuðborgarsvæðinu, fari þeir á námskeið hjá viðurkenndum hundaskóla.

Gjaldskrártekjur verða að meðaltali hækkaðar um 3,2%, sem þýðir að hækkun hundaleyfisgjalda er töluvert yfir meðaltali. Hundaeigendur hafa löngum velt því fyrir sér í hvað hundaleyfisgjöldin eru nýtt. Á Höfuðborgarsvæðinu eru skráðir um 5.600 hundar sem þýðir að  tæplega 70 miljónir safnast á ári hverju. Á Höfuðborgarsvæði eru fjögur afgirt gerði. Gerðin eru lítil og henta aðeins til að sleppa hundunum lausum og leika, þá aðalega smáhundum. Stærð veldur því að ekki er hægt að kasta bolta fyrir hundinn innan gerðisins, nema í Mosfellsbæ. Hundasamfélagið spyr hundaeigendur, er þetta í lagi?


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.