Hugarleikfimi

KONG Kong er einstaklega sniðugt gúmmídót sem er holt af innan. Það er hægt að troða nammi og mat inn í það (og sniðugt að frysta það svo með nammi ef hundurinn er mjög fljótur að klára það) og hundar geta dundað sér heillengi við að ná namminu innan úr því. Þetta reynir mjög á hugann og flestir hundar eru alveg búnir á því eftir þetta 🙂 Kong er líka mjög sniðgut dót þar sem þegar maður kastar því skoppast það óreglulega og þá þarf hundurinn að hugsa til að sækja og getur ekki brunað beint þangað sem þú kastar. Kong er ódrepandi dót ef það er í réttri stærð og af réttri þykkt. Svart er sterkast, svo rautt, svo eru fleiri litir. Kong er til í öllum stærðum og gerðum. Það er mikilvægt að kaupa ekki of lítið kong. Dæmi um fyllingar til að setja inn í kong:

 • Lifrapylsa (sniðugt að frysta)
 • Pylsa
 • Hundamatur (hægt að bleyta hann upp með soðnu vatni)
 • Hnetusmjör
 • Blautmatur
 • Kæfa (sniðugt að frysta)
 • Ostur (sniðugt að enda á honum og setja kong-ið svo inn í örbylgjuofn svo osturinn leki yfir allt)
 • Kjúklingur

Fela nammi

Það er sniðugt að loka hundinn í öðru herbergi og fela nammi út um alla íbúð (eða í ákveðnu herberg). Hleypið hundinum svo út og fylgist með honum nota nefið og litlu baunina.

Heimatilbúin hugarleikfimi

Það er hægt að búa til alls konar dót og leiki sem reynir á hugann hjá hundinum. Dæmi:

 • Setja harðfisk inn í sokk og snúa upp á hann
 • Setja nammi innan í klósettrúllu og brjóta upp á endana (hentar vel fyrir smáhunda)
 • Festa klístrað nammi (t.d. lifrapylsu) upp á steina, tré, grindverk og annað sem er í ákveðinni hæð svo hundurinn þurfi að klifra eða hoppa upp með framlappirnar.
 • Bjóða hundinum að hoppa upp á stein eða annað sem er hátt uppi og jafnvel óreglulegt í laginu. Þetta þjálfar hundinn í að vera ekki lofthræddur og er einnig góð styrktarþjálfun.
 • Setja nammi á gólfið og setja dollu/plastglas yfir

Tilbúnar heilaþrautir

Það er hægt að kaupa tilbúnar heilaþrautir í flestum dýrabúðum og á dýraspítölum. Þær eru til í mismunandi erfiðleikastigum.

Æfa kúnstir/tricks

Það reynir mikið á hundinn að læra eitthvað nýtt. Ef þú veist ekki hvernig á að kenna hundinum eitthvað eru oft til skemmtileg kennslumyndbönd á youtube. Ég mæli með að finna myndbönd þar sem jákvæðar þjálfunaraðferðir eru notaðar (t.d. skrifa positive reinforcement). Þannig er líka hægt að fá fleiri hugmyndir af kúnstum til að kenna. 


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.