Snöggur, harkalegur hósti, þar sem hundurinn kúgast, sleikir ítrekað útum og reynir að kyngja, getur verið merki um aðskotahlut eða sár í hálsinum. Ef hundurinn er nýkominn inn úr göngutúr eða garðinum getur ástæðan verið eitthvað jafn saklaust og strá sem hefur fests í hálsinum. Ef hundurinn hættir ekki að hósta mjög fljótlega er kominn tími til að fara til dýralæknis. Ef ekkert er að gert getur hundurinn endað með sýkingu í hálsinum og jafnvel lungnabólgu.

Ástæða 2 – Öfugur hnerri

Öfugur hnerri er ástand sem margir smáhundaeigendur þekkja vel, og sérstaklega eigendur hunda með kramið trýni. Öfugur hnerri er ekki hósti en hljóðið hræðir marga og er oft ruglað við hósta. Öfugur hnerri orsakast af litlum krampa eða ertingi í hálsinum og mjúkgómnum. Þetta getur til dæmis gerst þegar hundur æsist upp, við hreyfingu, of þrönga hálsól, frjókorn eða snöggar hitabreytingar. Stundum virðist þetta byrja alveg upp úr þurru. Venjulegur virkar þannig að lofti er ýtt snögglega út um nefið. Í öfugum hnerra er loftinu ýtt inn um nefið. Þetta hljóð getur verið ansi ógnvekjandi þegar maður heyrir það í fyrsta skipti og margir hundaeigendur verða mjög hræddir og halda að hundurinn sinn sé í astmakasti eða að kafna. Öfugur hnerri er yfirleitt ekki ástæða fyrir læknisheimsókn. Ef hundurinn þinn fær mjög oft öfugan hnerra er hins vegar sniðugt að skrá niður þær aðstæður sem kalla hann fram til að geta komið í veg fyrir hann í framtíðinni. Ef hundurinn þinn glímir almennt við öndunarvandamál (til dæmis hundar með kramið trýni) er þó að sjálfsögðu mikilvægt að leita til dýralæknis. Sömuleiðis ef hundurinn þinn byrjar að fá öfugan hnerra oftar en áður og í lengri tíma í einu.

Ástæða 3 – Hótelhósti

Hótelhósti, eða kennelhósti einsog sumir þekkja frekar, er skyndilegur hósti í (yfirleitt) áður heilbrigðum hundi. Hótelhósti er djúpur og þurr. Þessi hósti er bráðsmitandi og það er mikilvægt að eingangra hundinn frá öðrum hundum og að hafa samband við dýralækni ef grunur er um hótelhósta. Ef hundurinn þinn hefur nýlega umgengist aðra hunda gæti hann hafa smitast af hótelhósta. Einkennin koma yfirleitt fram 2-14 dögum eftir smit og stendur yfir í 10-20 daga. Hvolpar, eldi hundar og veikir hunda geta verið lengur að jafna sig.

Ástæða 4 – Lungnabólga

Ef hóstinn í hundinum þínum er blautur og/eða harkalegur gæti hann verið með vökva í lungum eða jafnvel lungnabólgu. Önnur einkenni eru lystarleysi, þrekleysi, hiti, þyngdartap og öndunarerfiðleikar. Ef þig grunar að hundurinn þinn sé með vökva í lungum eða með lungnabólgu skaltu strax hafa samband við dýralækni.

Ástæða 5 – Samfallinn barki

Hósti, sem má helst líkja við hljóðið sem gæsir gefa frá sér, gæti verið merki um að hundurinn þinn sé með samfallinn barka. Sérstaklega ef um smáhund er að ræða. Samfallinn barki getur bæði verið áunninn eða meðfæddur. Hundar með samfallinn barka eiga oft erfitt með hreyfingu, þeir þjást af öndunarörðugleikum og stundum kúgast þeir þegar þeir drekka og borða. Samfallinn barki hefur mjög mikil áhrif á lífsgæði hunda og því er mikilvægt að fara til dýralæknis og fá viðeiandi meðferð fyrir hundinn.

Ástæða 6 – Hjartasjúkdómar

Hósti getur verið merki um hjartasjúkdóma. Önnur merki um hjartasjúkdóma eru bláleit tunga, lystarleysi, þreyta, veikleiki, minnkað þol og of hægur eða of hraður hjartsláttur. Ef hundurinn þinn hefur verið greindur með hjartasjúkdóm og byrjar skyndilega að hósta þegar hann hvílir sig eða liggur, gæti sjúkdómurinn verið að ágerast og þá skaltu ræða við dýralækninn þinn.


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.