Mast greindi frá því í dag að hjartaormur hefði greinst í fyrsta skipti í einangrun á Íslandi. Hjartaormurinn er sníkjuþráðormurinn Angiostrongylus vasorum. Ormurinn fannst í saursýni sem er alltaf tekið við komu hunda í einangrun. Meðhöndlun hófst um leið og greining lá fyrir og vel verður fylgst með heilsufari hundsins á meðan á meðferð stendur. Hundar geta ekki borið smit beint frá hundi til hunds og fólki stafar ekki hætta af hjartaorminum. Talið er að smit berist í hunda þegar þeir éta smitaða snigla.

Hjartaormurinn finnst víða í Evrópu, Ameríku og Afríku og virðist vera að aukast vegna hlýnandi loftslags og auknum ferðalögum fólks með hundana sína. Hjartaomurinn sýkir refi og hunda en millihýslar eru ýmsar gerðir snigla, ef ormurinn kæmi til landsins er hugsanlegt að íslenskar sniglategundir gætu hentað sem millihýslar. Fullorðnir ormar halda sig í lungnaslagæðum og hægri hlið hjarta hunda og refa, en lifrur ferðast um lungnavefinn og valda þar skemmdum.

Einkenni hjartaormasmits eru misalvarleg, algengast er hósti, mæði, slappleiki og lystarleysi. Alvarlegar sýkingar geta leitt til dauða. Um 150 – 250 hundar eru innfluttir árlega.


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.