Hvað segja rannsóknir?

Áhrif hengingaróla á hunda hafa mikið verið rannsökuð. Margar rannsóknir sýna fram á grafalvarlegar afleiðingar þess að nota hengingarólar og þá er bæði talað um beina og óbeina notkun. Bein notkun á hengingarólum er það að kippa í ólina til að ,,leiðrétta“ hundinn. Óbein notkun á hengingarólum er það þegar hundar eru alltaf með ólina á sér og toga fast í ólina svo hún þrengir alltaf að hálsi hundsins þegar hann er í göngutúr. Þannig veldur ólin mjög miklum skaða, oft án þess að eigandinn átti sig á því (og munið, það er vísindalega sannað!). Önnur ástæða þess að hengingarólar eru mjög hættulegar er að margir nota hana vitlaust með því að setja hana vitlaust á hundinn. Þá slaknar ekki á ólinni þó svo að hundurinn hætti að toga í tauminn svo hundurinn er alltaf í andnauð. Ef þú ert hrædd/ur um að hafa ekki fulla stjórn á hundinum þínum án þess að nota hengingaról mæli ég með að hafa samband við hundaþjálfara sem notast við nútíma (jákvæðar) þjálfunaraðferðir. Það eru margar leiðir til að hafa stjórn á hundinum á meðan unnið er í vandamálinu, til dæmis með því að nota beisli sem er með smellu að framan fyrir taum. Rannsóknir hafa sýnt fram á skaða á barka og vélinda hunda. Þær hafa einnig sýnt fram á alvarleg tognunareinkenni í hálsi. Ólarnar hafa valdið yfirliði, köfnun, tímabundinni lömun á framfótum, taugalömun við barkakýli og minni mátt í afturfótum. Í sænskri rannsókn Hallgreen (1992) á mænuskaða í hundum kom í ljós að 91% hunda með breytingar í hálsliðum áttu langa sögu af því að toga í taum eða höfðu fengið kippi frá hengingarólum í þjálfun. Í rannsókn Scotty Valadao á 400 hundum kom í ljós að 63% þeirra voru skaddaðir á hálsi eða mænu. 78% þeirra hunda sem voru með vandamál tengd árásarhneigð voru skaddaðir á hálsi eða mænu. 91% þeirra hunda sem voru skaddaðir á hálsi eða mænu höfðu upplifað kippi í hengingarólum í þjálfun eða mikið tog í hálsól. Rannsókin sýndi þannig fram á skaðleg áhrif þess að kippa í hengingaról eða að láta hunda toga ítrekað í tauminn. Hinn virti hundaþjálfari Jim O’Neill segir: ,,Þegar þú átt í erfiðleikum með að velja hundaþjálfara er fljótleg og einföld útilokunaraðferð að spyrja þjálfarann hvort hann noti hengingarólar. Ef svarið er já, er þjálfarinn að viðurkenna að hann uppfæri ekki menntun sína og þekkingu og að hann hafi ekki þekkingu á mannúðlegri (vísindalega sönnuðum og árángursríkari) þjálfunaraðferðum. Þú ættir ekki að ráða þann þjálfara“. Í Þýskalandi var gerð rannsókn þar sem fylgst var með 50 hundum sem látnir voru nota hengingarólar. Þegar þeir dóu voru þeir krufðir. Í ljós kom að 48 þeirra voru með einhvers konar skaða á hálsi, barka eða baki.

Hvað á að nota í staðinn?

Hengingarólar eru notaðar með þjálfunaraðferðum sem byggjast á refsingu og leiðréttingarþjálfun. Vísindin segja okkur að jákvæð styrking er bæði öruggari og fljótlegri þjálfunaraðferð, sé hún notuð rétt. Þetta er einfaldlega spurning um fræðslu. Þegar þú notar jákvæðar þjálfunaraðferðir og gerir mistök gerist ekkert alvarlegt. Hundurinn fær einfaldlega ókeypis nammi. Ef þú notar mistök þegar þú notar ofbeldistól eins og hengingaról geturðu hins vegar átt von á að valda hundinum alvarlegum skaða. Þú getur einnig skaðað samband þitt við hundinn.

Viltu lesa meira?

Frábært! Hér eru fleiri greinar máli mínu til stuðnings:
The Issue with Choke Chains
Collars are for dog tags, not torture: Profit vs. safe practices
Say no to choke chains!
Is it harmful to attach a leash to your dog’s neck?


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.