Þegar ég heyri þau rök að sumir hundar þurfi meiri hörku í þjálfun, hugsa ég til úlfanna sem ég hef þjálfað. Úlfar eru ótrúlega sterkir og snöggir og þeir geta verið mjög hættulegir. Þeir eru líka gáfaðir og fljótir að læra. Þeir taka þó ekki þegjandi og hljóðalaust á móti hörku í þjálfun, eins og margir hundar gera. Tilraun mans til þess að ná líkamlegu valdi yfir úlfi myndi ekki enda vel. En hvernig fer fólk þá að því að vinna með úlfum? Blíðlega og af virðingu! Ég vann með mörgum úlfum og úlfahundum í björgunarathvarfi sem ég rak í Californiu og það er einnig gert á hverjum degi í Wolf Park, rannsóknarstöð í Indiana. Allt er það gert án þess að beita hörku. Það er vissulega rétt að sumir hundar eru með mun mýkri skapgerð en aðrir og auðveldari í þjálfun. Það eru líka til hundar sem eru mjög ákveðnir og ýtnir og já, líka árásargjarnir og hættulegir. Við gerum ákveðnum, ýtnum og árásargjörnum hundum ekkert gott með því að stimpla þá sem ,,erfiða hunda sem þurfa hörku“. Þvert á móti erum við að réttlæta þessa hörku og margir þjálfarar tala um að gera sig að ,,foringja“ hundsins. Grunnurinn að þjálfuninni verður þannig að hundurinn skilji hvar hann er í valdapýramídanum. Þannig halda þjálfarar að hundarnir verði hlýðnir og öruggir.  Það gæti ekki verið fjarri sannleikanum þar sem slíkar þjálfunaraðferðir geta bælt hundana niður og þeirra merkjamál. Það getur endað illa þar sem hundurinn gæti bitið algjörlega upp úr þurru einn daginn. Þessi þjálfunaraðferð gleymir einu mikilvægu atriði. Þjálfunin snýst ekki um hörku. Hún snýst um að öðlast traust hundsins. hundurogkona-minniAf hverju er hundurinn árásargjarn? Í flestum tilfellum er það vegna þess að hundurinn er óöruggur og hann bregst við með biti til að forðast það sem hann hræðist. Það eru vissulega til hundar sem eru einfaldlega að verna svæðið sitt af mikilli hörku eða hundar sem sýna árásarhneigð án þess að hún sé hræðslubundin en jafnvel í þeim aðstæðum virkar betur að öðlast traust hundsins en að beita hann hörku. Ég hef séð allt of marga hundaeigendur sem var ráðlagt að beita árásarhneigða hundinn sinn hörku og það fór á endanum illa. Einn hundaeigandi, sem leitaði til mín, hafði fengið fyrirmæli frá öðrum hundaþjálfara að leggja Ameríska Bulldog hundinn sinn á bakið og setjast ofan á hann, í hvert skipti sem hann sýndi árásarkennda hegðun. Þetta olli því að hundurinn beit hann í framan. Hann lærði sem betur fer af reynslunni og var opinn fyrir nýjum og betri aðferðum. Mér er alveg sama hvort hundurinn er 70 kíló eða 5 kíló, eða hvort vandamálið er taumganga eða það að hundurinn bítur. Enginn hundur þarf á meiri hörku að halda en annar. Það sem vantar er meiri þjálfun og kunnátta fyrir hundaþjálfarana þarna úti.

Ef þið viljið lesa fleiri greinar eftir Nicole Wilde, kíkið á heimasíðu hennar: http://www.nicolewilde.com/


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.