Haltu hundinum í kjörþyngd
Ekki láta hundinn þinn fitna með aldrinum. Ef hundurinn þinn er orðinn hægur þarf hann hugsanlega orkuminna fóður en hann gerði áður. Yfirþyngd hefur mjög slæm áhrif á hunda og hún tekur frá þeim mörg ár. Yfirþyngdin setur aukið álag á bein og liði. Offita hefur verið tengd við margs konar heilsufarsvandamál hjá hundum, meðal annars krabbamein. Gefðu hundinum þínum besta fóðrið sem þú hefur efni á að kaupa og passaðu upp á skammtastærðirnar. Ef þú vilt gefa hundinum nammi skaltu minnka matarskammtinn á móti. Svo er gott að venja sig á að gefa mjög litla nammibita í einu. Flestir hundar vilja frekar fá 10 litla bita af nammi en einn stóran nammibita.
Hjálpaðu öldungnum að koma sér á milli staða
Margir hundar verða valtir með aldrinum. Ef þú ert með sleipt parket á gólfunum er góð hugmynd að setja mottu á gólfið sem hjálpa hundinum að komast á lappir. Að koma fyrir litlum tröppum við uppáhalds staðinn á sófanum er einnig góð hugmynd. Ef gamli hundurinn þinn er með slæmar mjaðmir eða afturlappir er hægt að fá sérstakt beisli sem þú festir utan um magann á hundinum og hjálpar honum þannig að standa upp og ganga.
Ekki gleyma tönnunum
Uppsafnaður tannsteinn veldur tannholdsbólgu. Á löngum tíma geta bakteríurnar í munninum valdið alls kyns vandamálum, til dæmis hjartavandamálum. Slæmar tennur hafa þannig slæm áhrif á almennt líkamlegt ástand hundsins. Vertu dugleg(ur) að bursta tennur hundsins og stuðlaðu þannig að hraustum og glöðum hundi. Ef gamli hundurinn þinn hættir skyndilega að vilja matinn sinn skaltu láta dýralækni skoða tennurnar. Hann gæti verið með lausa tönn eða skemmd. Grein þýdd 31. október, 2015 af http://moderndogmagazine.com/articles/4-things-you-should-be-doing-your-senior-dog/80085]]>