Klassísk skilyrðing er undirstaða alls náms. Nám er allur sá lærdómur sem fylgir okkur í gegnum lífið, bæði stóru og litlu hlutirnir. Klassísk skilyrðing á sér stað hjá öllum lífverum; bæði mönnum og dýrum. Hefur þú stundum fengið það á tilfinninguna að hundurinn þinn sé með sjötta skilningarvitið? Hann veit að þú ætlar með hann í göngutúr, nánast áður en þú veist það. Hann kemur hlaupandi þegar þú opnar nammiskúffuna. Hann liggur rólegur á gólfinu á meðan bílar keyra fram hjá en sprettur svo upp um leið og bíllinn ykkar nálgast. Hann æsist upp í bílnum þegar þú tekur vinstri beygju í átt að Rauðavatni. Hann veit hvað er að koma.

Ivan_Pavlov_NLM3
Ivan Pavlov var upphafsmaður
klassískar skilyrðingar en
hann gerði rannsóknir á hundum.

Þarna er klassísk skilyrðing að verki. Hún hefur áhrif á tilfinningar. Einhver ákveðin atburðarrás veldur tilfinningalegri svörun, eða á mannamáli: Eitthvað gerist og hundurinn lærir að þetta ,,eitthvað“ veldur því að eitthvað annað gerist. Hundurin lærir, með tímanum, að áður en þið farið í göngutúr stendur þú upp, lokar tölvunni, gengur í áttina að klukkunni, ferð á klósettið og býður hundinum svo upp á göngutúr. Hundurinn mun smám saman læra að tengja þessa atburði saman þar til það verður nóg að þú lokir tölvunni, svo hundurinn viti hvað er að fara að gerast. Hann lærir að hljóðið í nammiskúffunni boðar yfirleitt nammi, þó svo að hann fái ekki alltaf smakk. Hann er tilbúinn að taka sénsinn. Hann lærir að greina á milli hljóða, hann þekkir hljóðið í þínum bíl. Hann þekkir leiðina í áttina að Rauðavatni og veit að eftir nokkrar mínútur fær hann að hlaupa um laus og skemmta sér. Sömuleiðis getur hann lært leiðina til dýralæknisins og tengt þá leið við neikvæðar tilfinningar.
Klassísk skilyrðing er það sem við notum í klikkerþjálfun. Hundurinn lærir að tengja klikker við nammi/leik/eitthvað gott. Þannig getum við fengið tilfinningalega svörun (,,Já! Ég gerði þetta rétt og fæ nammi eftir smá stund“) með því að smella klikkernum.
Dæmi frá okkur mannfólkinu er t.d. þegar við finnum tannlæknalykt á tannlæknastofunni og við fáum ónot í magann. Það sama gerist þegar við verðum veik eftir að hafa borðað mat (jafnvel þó okkur hafi fundist maturinn góður) og næstu árin getum við ekki hugsað okkur að bragða matinn. Okkur verður hreinlega óglatt við tilhugsunina.
Klassísk skilyrðing er semsagt ekki eitthvað sem gerist meðvitað, heldur ómeðvitað.

Virk skilyrðing – Operant Conditioning (OC) – Instrumental Conditioning

Ólíkt klassískri skilyrðingu, sem hefur áhrif á tilfinningar, hefur virk skilyrðing áhrif á hegðun. Hundurinn lærir tafarlausar afleiðingar gjörða sinna. Hann lærir hvað það er sem gerist strax í kjölfar hegðunar með þeim afleiðingum að hegðunin breytist (annað hvort eykst hún, minnkar eða stendur í stað). Við getum beitt virkri skilyrðingu til að hafa áhrif á hegðun. Það eru ferns konar mögulegar afleiðingar þess að beita virkri skilyrðingu:
Jákvæð styrking
Neikvæð styrking
Jákvæð refsing
Neikvæð refsing
Nú kemur að því sem ruglar ansi marga. Það eru þessi orð. Jákvætt og neikvætt, refsing og styrking. Nú talar fólk gjarnan um jákvæðar þjálfunaraðferðir. Það þarf að vera alveg skýrt að meiningin bakvið það orð er allt önnur en í þessum sálfræðilegu hugtökum. Í almennu tali er jákvætt það sem er gott og neikvætt það sem er slæmt. Í sálfræði/hundaþjálfun hafa þessi orð allt aðra meiningu og verður farið nánar í það hér:
Styrking á sér stað þegar tíðni hegðunar eykst.
Refsing á sér stað þegar tíðni hegðunar minnkar.
Jákvætt er það þegar við fáum eitthvað (hvort sem það er blómvöndur eða stóll í hausinn).
Neikvætt er það þegar eitthvað er tekið frá okkur (hvort sem við viljum það eða ekki).

Jákvæð styrking

Hundur sest niður. Um leið og hann sest niður gefurðu honum nammibita. Þetta veldur því að hegðunin styrkist. Hann sest aftur (til að fá meira nammi).

Neikvæð styrking

Hundur stendur í sakleysi sínu og gerir ekki neitt. Þú byrjar að rykkja og rykkja í tauminn þar til hundurinn loksins sest. Um leið og hundurinn sest, hættir þú að rykkja í tauminn. Þetta veldur því að hegðunin styrkist. Hann sest aftur (til að forðast meiri rykkingar).

Jákvæð refsing

Þú ert í labbitúr með hundinn þinn. Hundurinn togar og togar. Þú ákveður að rykkja í tauminn svo hundurinn meiði sig í hálsinum. Þetta veldur því að hundurinn hættir að toga.

Neikvæð refsing

Þú kemur heim úr vinnunni og hundurinn þinn kemur hlaupandi og stekkur upp á þig. Þú snýrð baki í hundinn og hunsar hann. Þetta veldur því að hundurinn hættir að hoppa.

tafla

Til að skilja þessi hugtök betur er mikilvægt að átta sig á því að ætlun þín skiptir engu máli. Það eina sem við horfum á er hvort hegðun hundsins breyttist. 
Tökum dæmi. Hundurinn þinn byrjar að gelta þegar vinur þinn hringir dyrabjöllunni. Þú hleypur ógnandi að hundinum og öskrar á hann. Það sem þú ætlaðir þér líklega að gera var að beita jákvæðri refsingu (eitthvað slæmt byrjar sem veldur því að tíðni hegðunar minnkar) en hundurinn heldur áfram að gelta og ef eitthvað er, meira en áður. Það er eins og hundurinn sé að segja ,,Já! Láttu hann heyra það!!“. Það sem þú gerðir var að beita jákvæðri styrkingu. Öskrin í þér voru ekki ógnandi fyrir hundinn þó svo að það hafi verið meiningin. Öskrin í þér voru styrkjandi fyrir hundinn. Hann hélt að þú værir að gelta með sér.
Sömuleiðis getur meiningin bakvið það sem við gerum verið mjög falleg. Við ætlum okkur að nota jákvæða styrkingu. Sem dæmi má nefna þegar þú ætlar að hrósa hundinum þínum í göngutúr fyrir að halda góðu augnsambandi. Þú hrópar upp fyrir þig „VÁ, ROSALEGA ERTU DUGLEGUR!!!“ en hundurinn verður skíthræddur og hættir að horfa á þig. Þarna virkaði hrósið þitt sem jákvæð refsing.
Fólk talar oft um að hafa prófað jákvæða styrkingu, en það virkaði ekki á hundinn þeirra. Þar er augljóst að fólk hefur ekki næga þekkingu á hugtakinu þar sem að jákvæð styrking átti sér aldrei stað, fyrst hegðunin styrktist ekki. Þarna komum við aftur að mikilvægi þess að þekkja hundinn sinn, vita hvað honum finnst gott og að vita hvað honum finnst ekki gott. Þá fyrst getum við beitt þessum aðferðum til að hafa áhrif á tíðni hegðunar.

Hvað nota jákvæðir hundaþjálfarar?

Jákvæðir hundaþjálfarar notast einungis við jákvæða styrkingu og neikvæða refsingu.


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.