26. janúar síðastliðinn tilkynnti félagið Hjálparhundar Íslands stjórn félagsins á Facebook síðu sinni. Stjórn félagsins er skipuð þremur aðalmönnum og þremur varamönnum. Stjórnina skipa: Haraldur Sigþórsson formaður, Elín Ingibjörg Kristófersdóttir gjaldkeri og Gunnhildur Jakobsdóttir ritari. Varamenn eru Edda Kristveig Indriðadóttir, Esther Hlíðar Jensen og Kjartan Haukur Eggertsson.

Tilgangur félagsins er margþættur, að fræða almenning um hjálparhunda almennt og að bæta þjálfun, úthlutun og notkun hjálparhunda. Mikilvægast er þó að félagið mun vinna að setningu laga um réttindi fólks með fötlun eða sjúkdóm sem notast við hjálparhunda.
- Bæta þjálfun, úthlutun og notkun hjálparhunda.
- Bæta menntun sérfræðinga, starfsfólks og sjálfboðaliða.
- Fræða almenning um hjálparhunda.
- Vinna að setningu laga um réttindi fólks með fötlun eða sjúkdóm til þess að notfæra sér aðstoð hunda og þjónustu með aðstoð hunda. – Úr samþykkt félagsins
Eins og hundasamfélagið fjallaði um árið 2016 í greininni Hvað er hjálparhundur? þá eru hjálparhundar ekki með sömu réttindi og leiðsöguhundar vegna þess að hingað til hefur engin stofnun tekið að sér að halda utan um skráningu og þjálfun hjálparhunda líkt og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga hefur gert þó svo að þjónustuhundum hafi fjölgað gífurlega seinustu ár. Um 20 manns hafa að starfað í vinnuhópi á vegum félagsins. Við mælum með því að áhugasamir fylgist með vinnu félagsins og Facebook síðunni Hjálparhundar Íslands, Hundasamfélagið mun fylgjast spennt með þessum mikilvægu samtökum um réttindi fólks og þeirra hjálparhunda.
