Hvað er Suprelorin?

Suprelorin er ekki ósvipað örmerki í útliti og er stungið undir húð og situr þar eftir.

Til hvers er Suprelorin notað?

Suprelorin er notað til að gera karlhunda ófrjóa tímabundið. Það er aðeins notað á heilbrigða, kynþroska hunda sem ekki hafa verið geldir.  Ekki þarf skurðaðgerð til að koma Suprelorin fyrir þar sem það er einfaldlega stungið undir lausu húðina á hnakka hundsins (hnakkadrambið). Suprelorin byrjar að virka eftir u.þ.b. 6 vikur en þá hafa rannsóknir sýnt að sæðisfrumur eru orðnar óvirkar. Suprelorin virkar í 6mánuði og eftir þann tíma er hægt að setja aftur upp Suprelorin sé þess þörf. Talað er um að sjá megi breytingar á hegðun, sem tengist kynhneigð hundsins, eftir um það bil 14 daga.
suprelorin-dog-image

Hvernig virkar Suprelorin?

Virka efnið í Suprelorin nefnist deslorelin og virkar eins og náttúrulega hormónið Gonadotropin (GnRH) en það stýrir seytingi á hormónum tengdum frjósemi. Suprelorin og virka efnið deslorelin hamla framleiðslu hormónanna Follicle stimulating hormone (FSH) og Luteinising hormone (LH). Afleiðingar þess hjá karlhundum er sú að minna testosterone kemst út í blóðflæðið, hundurinn hættir að framleiða sæði og dregið er úr kynhvötinni. Ef hundur sem er með Suprelorin ígræðslu parast við tík á lóðaríi, eru líkurnar á því að hún verði hvolpafull litlar sem engar.

Hvernig hefur Suprelorin verið rannsakað?

Suprelorin hefur verið rannsakað sérstaklega hjá hundum í þyngdarflokkunum 10-25kg sem fengu ígræðsluna og fylgst var með þeim næstu 12 mánuðina. Rannsóknin horfði til áhrifa Suprelorin á magn testosterone í blóðinum, stærð eistanna og sæðisframleiðslu hundsins. Einnig var skoðað hversu öruggt Suprelorin var fyrir heilsu hunda, en þeir fengu þá 10x sterkari skammt en mælt er með.

Hvaða kosti sýndu rannsóknir að Suprelorin hefur í för með sér?

Allar rannsóknir sýndu fram á lækkun á testosterone í blóðinu, minnkun eista, dregið hafði úr kynhvöt og sæðisframleiðslu. Fleiri en 95% hunda sýndu þessi einkenni eftir innan við 6 vikur. Meirihluti hunda var aftur komin í eðlilega sæðisframleiðslu u.þ.b. ári eftir síðustu Suprelorin í græðslu og hundar hafa verið paraðir við tíkur með góðum árangri eftir að Suprelorin meðferð lauk.

Hvaða áhættuþættir fylgja notkun Suprelorin?

Hundar geta bólgnað upp á staðnum þar sem Suprelorin var grætt í þá. Eins geta orðið staðbundin viðbrögð eins og þroti allt upp á þremur mánuðum eftir ígræðsluna. Bólga og þroti ætti að leysast af sjálfu sér. Eistun minnka mikið meðan á meðferð stendur en eftir að Suprelorin hættir að virka eykst stærð þeirra aftur. Ekki er mælt með notkun Suprelorin á hunda sem ekki eru orðnir kynþroska þar sem áhrif þess hafa ekki verið rannsökuð á þeim dýrum.
Nefnd um málefni lyfja sem notuð er í gæludýraiðnaðinum (CVMP) komst að þeirri niðurstöðu að kostir við notkun Suprelorin hefðu meira vægi en áhættuþættirnir þegar kemur að notkun þess á heilbrigðum, ógeldum, kynþroska karlhundum.
Heimild: European Medicines Agency; Veterinary Medicines.
European public assessment report (EPAR). Suprelorin.
http://www.ema.europa.eu

Höfundur: Jóhanna Reykjalín, hundaþjálfari Hundastefnunnar

]]>


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.