
Atlas, 5 ára Gordon Setter, var bjargað eftir að hafa fallið ofan í 5-6 metra ofan í sprungu. Tvær björgunarsveitir voru kallaðar út í Árnessýslu í gær. Opið var ekki stórt og vel falið í kjarrlendi, eigendur hundsins sáu ekki til hans en heyrðu í honum.

Hundurinn kominn upp úr sprungunni. Ljósmynd/Landsbjörg
Samkvæmt frétt sunnlenska.is fóru tíu björgunarsveitarmenn á vettvang og þurftu þeir að síga niður sprunguna og finna hundinn. Tókst þeim að koma ólum um hann og hífa hann upp, hann komst úr sprungunni heill á húfi seinni partinn í gær.
Hundasamfélagið vill minna hundaeigendur á að vera ekki með hunda lausa á þessu svæði og ekki með tauminn tengdan í hálsól. Það er mikilvægt að hafa hund í góðu beisli sem skaðar ekki hundinn ef það þarf að draga hann upp úr sprungu. Sprungurnar sjást illa og hundar hafa oftar en einu sinni dottið niður í sprungur, sem dæmi má nefna Ronju sem fannst eftir viku ofan í sprungu á Þingvöllum árið 2017.