Björn Leví Gunnarsson sendi inn fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um áverka eftir hunda síðastliðin 5 ár. Spurt var um fjölda þeirra sem leitað höfðu til læknis vegna áverka eftir hunda og hvort verkferlar séu til í tengslum við hundsbit.

Flestir sem komu á spítalann vegna áverka eftir hund voru með það litla áverka að alvarleiki þeirra var talinn „enginn“ eða „lítill“.

Hversu margir hafa árlega leitað til læknis síðustu fimm ár vegna áverka eftir hund?

Svar heilbrigðisráðherra var að ekki væru til heildstæðar upplýsingar um fjölda einstaklinga sem leita til læknis vegna áverka eftir hund. Þó fengust svör frá Landspítalanum, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Tölurnar frá Heil­brigðis­stofn­un Vest­fjarða eru áætlaðar samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjóra lækninga á stofnuninni og Heil­brigðis­stofn­un Aust­ur­lands gat ekki aðgreint hundsbit frá öðrum dýrbitum og gat því ekki veitt nákvæmar tölur. Heilbrigðisstofnun Norðurlands hafði ekki tök á að nálgast þessar upplýsingar úr sjúkraskrám innan þess tíma sem veittur var til svara.

Myndin er unnin upp úr svörum heilbrigðisráðherra.

Mest var um að fólk leitaði til læknis árið 2016. Þá leituðu 136 einstaklingar til læknis. Árið 2017 leituðu alls 53 til læknis á heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins.

Spurt var út í verkferla ef einstaklingur leitar til læknis með áverka eftir hund, sem og hvaða upplýsinga er aflað um atburðinn í slíkum tilvikum. Í ljós kom að engir sérstakir verkferlar fylgja hundsbiti fremur en öðrm sárum. Sömuleiðis eru engir samræmdir verkferlar á landsvísu varðandi upplýsingaöflun varðandi áverka eftir hunda. Áverkar eftir hundsbit eru ekki heldur flokkaðir eftir alvarleika, en áverkum er lýst í sjúkraskrá. Á Landspítala fá öll slys einkunn frá einum upp í sjö eftir alvarleika: Enginn, lítill, meðal, mikill, alvarlegur, lífshættulegur, deyr.
Undanfarin fimm ár voru flestir sem komu á spítalann vegna áverka eftir hund með það litla áverka að alvarleiki þeirra var talinn „enginn“ eða „lítill“. Á þessu fimm ára tímabili voru aðeins sjö af þeim 625 einstaklingum, þar sem einhver skráning um hund kom fyrir, með áverkaflokkinn „meðalalvarleika“, en dæmi um áverka í þeim flokki eru tognun, ristarbrot og handleggsbrot.
Nú er einungis hægt að geta sér til um þá aukningu sem hefur orðið á hundahaldi síðastliðin ár. Það fer þó ekki framhjá neinum að sú aukning er töluverð. Það að tíðni bita hafi ekki aukist meira en þetta milli ári hlýtur að túlkast á jákvæðan hátt. Samkvæmt könnun MMR árið 2015, er gæludýr á 39% íslenskra heimila og hundar á um 20% heimila.
Þessi mikla aukning á hundahaldi kallar á frekari upplýsingar um hundahald á Íslandi. Það er mikilvægt fyrir hundasamfélag Íslands að vita hversu margir eigi hund, hversu margir hundar séu skráðir, hversu margir hundar bíta og hversu alvarlega. Hundamenning Íslands er orðin það mikil að tímabært er að taka næsta skref.

Heimildir:
https://www.althingi.is/altext/148/s/1324.html
https://mmr.is/frettir/birtar-nieurstoeeur/470-gaeludyr-a-39-heimila-a-islandi


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.