Það er stór ákvörðun að fá sér hund. Þessi ákvörðun mun breyta lífi þínu. Það er mikil vinna að hugsa um hvolp en ef þú hugsar vel um hann færðu traustan félaga til baka sem elskar þig skilyrðislaust. Þú ert að taka á þig mikla ábyrgð. Ef þú ert ekki viss um hvort hundur sé rétta gæludýrið fyrir þig skaltu spyrja þig eftirfarandi spurninga:
Eru hundar leyfðir þar sem þú býrð?
Til að fá leyfi fyrir hundahaldi þarf samþykki frá 2/3 eigenda í húsinu þínu. Það er ekki nóg að fá samþykki frá leigjendum. Þú þarft að fá skriflegt samþykki (helst frá húsfélaginu) og þú þarft að láta þinglýsa leyfinu. Þú skalt alls ekki fá þér hund fyrr en þú ert búin(n) að fá þetta leyfi.
Nánari upplýsingar um Fjöleignarhúsalögin má finna hér
Muntu búa á þessum stað næstu árin? Hefurðu samastað fyrir hundinn ef þú lendir í vandræðum?
Hefurðu efni á að eiga hund?
Það er dýrt að eiga hund. Því stærri sem hundurinn er, því dýrara. Margir halda að startkostnaðurinn sé stærsti bitinn en peningarnir eru fljótir að fara þegar hundurinn veikist eða slasast og þarf að fara til dýralæknis.

Grunnkostnaður við að fá sér hund:
Matar- og vatnsdallarBæli og/eða búrLeikföngNagbeinHundamaturHálsólBeisliTaumurGrunnnámskeið hjá hundaþjálfaraHundaleyfisgjöldBólusetning, ormahreinsun og örmerking hjá dýralækniTryggingarskoðunSlys- og sjúkdómatrygging
Það sem flestir þurfa svo að kaupa mánaðarlega/árlega:
HundamaturNagbein og nammiÁrlega: Heilsufarsskoðun hjá dýralækni og ormahreinsunÁrlega: HundaleyfisgjaldAnnað hvert ár: Bólusetning
Það sem getur komið upp á með litlum sem engum fyrirvara:
Væg veikindi (til dæmis magapestir)Alvarleg veikindi (til dæmis legbólgur, krabbamein eða sykursýki)Slys (til dæmis beinbrot)Algeng veikindi: Mjaðmalos, hnéskeljalos, eyrnabólgur, augnsýkingar, ofnæmi, slitið krossband og hjartasjúkdómar.
Láttu tryggja hundinn!
Það er mjög mikilvægt að tryggja gæludýrin sín. Flest tryggingafélög bjóða upp á slysa- og sjúkdómatryggingu fyrir gæludýr ásamt afnotamissistryggingu fyrir hreinræktaða hunda. Það er hægt að tryggja bæði blendinga og hreinræktaða hunda.
Þetta er spurning um að borga um 20.000 eða 200.000 ef hundurinn lendur í slysi eða alvarlegum veikindum! Ekki bíða, fáðu tryggingu um leið og hundurinn er kominn á heimilið.
Viltu fá hvolp eða fullorðinn hund?
Hvolpar eru rosalega sætir en þeir krefjast mikillar vinnu og athygli. Ef þú hefur ekki tíma eða orku til að húsvenja ofvirkan hvolp með athyglisbrest, hentar þér líklega betur að taka að þér fullorðinn hund. Það er fullt af fullorðnum hundum í heimilisleit og með því að sleppa hvolpauppeldinu geturðu fengið rólegan og vel upp alinn hund.
Hefurðu tíma til að hugsa um hund?
Eins og áður sagði er mjög tímafrekt að hugsa um hvolp. Til að húsvenja hann þarftu að fara með hann út á að minnsta kosti tveggja tíma fresti yfir daginn og þú þarft að fylgjast vel með honum til að tryggja öryggi hans.
Ef þú ert að vinna 8-9 klst. á dag þarftu að vera búin(n) að skipuleggja hvernig þú ætlar að hugsa um hvolpinn á daginn. Kemstu heim í hádeginu? Geturðu tekið frí fyrstu dagana á meðan hvolpurinn venst heimilinu? Geturðu komið hvolpinum fyrir í pössun á meðan þú ert í vinnunni? Getur einhver úr fjölskyldunni komið við heima í hádeginu og farið í göngutúr með hundinn?
Ferðastu of mikið til að eiga hund?
Ef þú ferðast mikið þarftu að vera með örugga pössun fyrir hundinn. Getur einhver úr fjölskyldunni passað hundinn? Eru góð hundahótel í nálægð við heimili þitt og hefur þú efni á að borga fyrir það?
Hundar eru ekki leyfðir í strætó svo ef þú átt ekki bíl geturðu lent í vandræðum. Hvernig ætlarðu að koma hundinum til dýralæknis? Hvernig ætlarðu að komast í göngutúra á nýju svæði?
Er heimilið hvolpavænt?

Ef þú ert ein(n) af þeim sem vill hafa heimilið sitt tandurhreint og glansandi öllum stundum er hvolpur líklega ekki rétta valið fyrir þig. Sama má segja ef þú vilt geyma mikið af dýrum og brothættum styttum og kertastjökum á gólfinu. Hvolpar hafa rosalega mikla nagþörf og þeir naga hvað sem þeir komast í fyrsta árið, hvort sem það eru húsgögn, bækur, snúrur eða nýju fínu skórnir. Hvolpurinn mun líka pissa á gólfið og mjög líklega á nýju, dýru gólfmottuna.
Ertu með hundaofnæmi?
Ef þú ert með hundaofnæmi skaltu ekki taka þá áhættu að fá þér hund sem fer ekki úr hárum nema vera búinn að máta alveg eins hund á heimilinu, til dæmis með því að passa. Þó svo að sumir hundar fari ekki úr hárum (til dæmis púðlur og schnauzer), geta þeir samt sem áður valdið ofnæmi með húðinni og munnvatninu.
Ef einhver á heimilinu hefur ekki umgengist hunda er góð hugmynd að senda alla fjölskylduna í ofnæmispróf áður en hundur kemur á heimilið.
Vilja allir á heimilinu hund?
Ef þú býrð með öðru fólki skaltu vera viss um að það sé tilbúið að hjálpa til við hundauppeldið. Það er óhjákvæmilegt að allir á heimilinu munu einhvern tíman þurfa að sjá um hundinn. Hundaþjálfun (og sérstaklega þegar það er verið að húsvenja hvolpa) snýst að miklu leyti um staðfestu og að allir fylgi sömu reglum. Þess vegna er mikilvægt að allir á heimilinu séu tilbúnir að hjálpast að. Það eru líka miklar líkur á að hvolpurinn þinn muni naga eða pissa á eitthvað sem aðrir á heimilinu eiga. Eru þau tilbúin í það?
Hefurðu líkamlega getu til að hugsa um hund?
Flestir hundar, sérstaklega ungir hundar, þurfa að komast oft út að hreyfa sig og teygja úr fótunum. Göngutúrar hjálpa hvolpum að brenna orku og þeir halda þeim heilbrigðum. Göngutúrar eru líka mikilvægur partur af umhverifsþjálfun en í göngum mætir hvolpurinn alls konar áreiti eins og öðru fólki, hundum, köttum, börnum og hjólum.
Hefurðu líkamlega heilsu í að fara í 2-3 göngutúra á dag með hundinum þínum? Ef þú getur það ekki, er einhver annar í fjölskyldunni sem gæti tekið það að sér?
Ef þú vilt ekki eyða miklum tíma í göngutúrum skaltu gæta þess að velja tegund sem þarf ekki mikla hreyfingu. Sömuleiðis, ef þú vilt eyða miklum tíma í göngutúrum skaltu gæta þess að velja tegund sem þolir miklar hreyfingu.
Ef þú vilt hreinræktaðan hund, er ræktandinn þinn ábyrgur?
Veldu ræktanda sem geymir hvolpana inni á heimilinu, sem er ekki með mörg got í einu og sem leggur ríka áherlsu á umhverifsþjálfun. Það hvernig ræktandinn hugsar um hvolpinn fyrstu vikurnar hefur mjög mikið að segja um hvernig skapgerð hundurinn mun hafa í framtíðinni.
Þú vilt líka gæta þess að ræktandinn hugsi um heilsufar. Fáðu að hitta báða foreldra og spurðu fyrir um heilsufar þeirra. Spurðu hvort það sé mjaðmalos eða aðrir sjúkdómar í ættinni.
Ekki styðja hvolpaframleiðslu/hvolpabúskap (e. puppy mill). Það eru staðir sem hafa tugi hunda saman undir einu þaki, koma með mörg got í einu og hugsa lítið um líkamlegt og andlegt ástand hvolpanna eða mæðra þeirra.
Innblásið af http://www.bustle.com/articles/70287-10-things-you-absolutely-must-know-before-getting-a-puppy