Það geta allir verið sammála um að hundamenningin á Íslandi hefur breyst ört síðastliðin ár. Það hafa aldrei verið jafn margir hundar í Reykjavík. Aldrei hafa jafn mörg námskeið verið í boði og hundaeigendur geta valið úr stórum fjölda af frábærum hundaþjálfurum. Mikið úrval er til af hundafóðri og öðrum hundavörum og hundaeigendur keppast um að kynna sér allt sem þarf til að geta hugsað sem best um hundinn sinn. Það besta er svo hversu margir hundaeigendur hafa tekið upp jákvæðar þjálfunaraðferðir.

Það er þó eitt sem virðist sitja fast í mörgum og það er hvernig við tölum um hunda. Við tölum um skipanir, leiðtoga og undirgefni. Við tölum um að hundar viti að þeir séu óþekkir. Þeir vita að þeir mega ekki hoppa upp í sófa og þeir vita að þeir mega ekki stelast í ruslið.

Ef við ætlum að fylgja spekinni um jákvæðar þjálfunaraðferðir, verðum við að breyta því hvernig við hugsum og tölum um hunda. Tungumálið hefur nefnilega mikil áhrif á menningu og því gefur það augaleið að tungumálið hefur einnig áhrif á hundamenninguna.

Hvað getum við gert?

Tölum um stikkorð í staðinn fyrir skipun. Þú setur stikkorð á æfingar í staðinn fyrir að skipa hundinum fyrir. Tölum um hundinn sem fjölskyldumeðlim. Við erum ekki æðri verur en hundar, þó svo að þeir lifi á heimilinu okkar og við berum ábyrgð á þeim. Förum með hundinum í göngutúr, í staðinn fyrir að fara með hundinn í göngutúr. Áttum okkur á því að hundar hugsa allt öðruvísi en menn. Hundurinn veit ekki að það er bannað að fara upp í sófa. Hundurinn veit að hann hefur oft kúrt og haft það notalegt í mjúka sófanum án þess að lenda í vandræðum. Hundurinn veit sömuleiðis að það að hoppa upp í sófa í þinni návist leiðir til þess að þú verður reið/ur og skammast. Ef hundurinn vissi að það er bannað að vera uppi í sófa, þá myndi hann ekki gera það. Hundurinn veit að hann græðir stundum matarbita með því að stelast í ruslið. Það besta við að breyta hugarfarinu og að hugsa og tala öðruvísi um hunda, er að þú reiðist hundinum mun sjaldnar, ef nokkurn tíman. Þú áttar þig á því að hundurinn er ekki að vera óþekkur. Hann er bara að vera hundur.  Hundum finnst gott að hafa það notalegt og sófinn er mun notalegri en gólfið. Ef þú vilt ekki að hundurinn hoppi upp í sófa, hafðu þá bæli á gólfinu sem er alveg jafn notalegt og sófinn. Afmarkaðu rými svo hundurinn komist ekki að sófanum eða ruslatunnunni. Ekki skilja ruslatunnuna eftir á stað sem hundurinn nær í. Ef hundurinn þinn hefur komist tíu sinnum í ruslatunnuna og dreift matarafgöngum og rusli um öll gólf, gæti þá ekki verið að þú sért vandamálið? Við mennirnir eigum nú einu sinni að vera aðeins gáfaðri en hundar, ekki satt? Hafðu ruslatunnuna á stað sem hundurinn nær ekki til. Með einfaldri stjórn á aðstæðum er nefnilega hægt að koma í veg fyrir margt sem hundar gera af þeirri einföldu ástæðu að þeir eru hundar.


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.