Matvælastofnun (MAST) greindi frá því í gær að tekin hefði verið ákvörðun um að stöðva starfsemi Hundaræktarinnar í Dalsmynni á grundvelli laga um velferð dýra. Stofnunin segir að kröfur um varanlegar úrbætur hafi ekki verið virtar, viðhaldi húsnæðis hafi verið ábótavant og að aðgerðir og áætlanir vegna ormameðhöndlunar hunda ásamt sýnatökum hafi ekki þótt fullnægjandi.
Dalsmynni er þar með bannað að flytja inn hunda, para, rækta, vera með got eða annað hundahald sem ætlað er til ræktunar eða tengist starfseminni. Einnig má ekki passa eða geyma hunda á staðnum og hefur Dalsmynni verið veittur frestur til eins mánaðar til að ráðstafa hundunum.
Matvælastofnun hefur áður haft afskipti af starfseminni og ítrekar MAST að um endurtekin brot er að ræða.
Árið 2012 var ótímabundið bann sett á dreifingu hunda
Þann 29. febrúar 2012 greindust lirfur ormsins Strongyloides stercoralis í saursýnum úr hundum á Dalsmynni í fyrsta sinn á Íslandi. Rannsókn á saursýnum úr hundum á hundabúinu leiddi í ljós að þetta ormasmit var að finna í nær 50% þeirra sýna sem þar voru tekin. Með bréfi Matvælastofnunar dagsettu 1. mars 2012 var ótímabundið bann sett við dreifingu hunda frá búinu. Matvælastofnun aflétti banninu 30. apríl 2012, þar sem engin merki um sýkingu ormsins fundust í saursýnum frá búinu sem tekin voru í tvígang í apríl 2012. Í sama bréfi var mælst til þess að búið tæki ábyrga stefnu gagnvart ormasýkingunni sem getur reynst erfið viðureignar. http://www.mast.is/frettaflokkar/frett/2012/03/01/Thradormur-i-hundum/
Árið 2013 voru 18 brot á reglugerðum skráðar í skoðunarferð frá MAST
Í skýrslu frá MAST sem Hundasamfélagið hefur undir höndum voru 18 brot á reglugerðum skráð í skoðunarferð MAST þann 19. nóvember 2013. Þar er skráð að þrengsli hafi verið á hundum og of litlar stíur fyrir gottíkur, hundasaur hafi verið í innistíum, merki um að hundar fái ekki nægilega afþreyingu og tímalengd útiveru ekki skráð. Skráning á fóðrun hafi ekki verið til staðar og áætlun um sýnatökur og rannsóknir ekki til staðar.
Árið 2014 stöðvaði MAST dreifingu hunda frá Dalsmynni
Þetta var gert vegna þess að Dalsmynni hafði ekki sinnt úrbótum á aðbúnaði til að halda niðri smiti af völdum þráðorma og annarra iðrasýkinga sem greinst hafa þar. Í skýrslu Matvælastofnunar frá 6. febrúar 2014 kemur fram að verklag sé ekki til staðar á búinu um heilbrigðisskoðanir og lyfjameðferðir ræktunarhunda, heilsufar eða lyfjameðhöndlanir gæludýra sem komin eru í einkaeigu, þrif og sótthreinsun. Auk þessa voru upplýsingar um hugsanlegt smit í hvolpum ekki gefnar af seljanda til kaupanda né leiðbeiningar um meðferð og sýnatökur, en samkvæmt 11. gr. dýravelferðarlaganna skal veita viðtakanda dýrs, eftir því sem við á, upplýsingar um atriði sem máli skipta um velferð þess. http://mast.is/frettaflokkar/frett/2014/03/17/Matvaelastofnun-stodvar-dreifingu-hunda-fra-Dalsmynni/ 26. mars 2014 teljast 130 hundar á Dalsmynni, 19 rakkar, 56 tíkur og 55 hvolpar. Í skýrslunni kemur fram að mjög þungt loft hafi verið í báðum húsum (Hvolpahúsi og neðrahúsi).
Loftið lyktaði af ammóníaki og saur.
„Í neðra húsi eru nokkrar stíur í gluggalausu rými og var myrkur þar inni er komið var að. Þar voru 2 ræktunartíkur staðsettar saman í einni stíu auk þess sem tvær aðrar tíkur í einkaeigu voru geymdar í sitt hvorri stíunni. Var viðstöddum tjáð að þar ættu hundar ekki að vera geymdir en var sú skýring gefin að ræktunartíkurnar væru að hvíla sig þar sem þær væru að lóða“ 22. maí 2014 teljast 140 hundar á Dalsmynni, 16 rakkar, 56 tíkur og 68 hvolpar. Enn eru athugasemdir um verklag þar sem skráning á heilbrigðisskoðunum og lyfjameðferðum ræktunarhunda, útiveru, fóðrun og öðru sem við kemur velferð hvolpa eldri en 8 vikna ekki til staðar. 4. des 2014 greinast 28 frávik á Dalsmynni. Meðal þess er pug tík skráð pöruð tvö lóðatímabil í röð, lóðatíkur ekki hafðar sér, elstu ræktunartíkurnar eru 8 ára og ekki var haft samráð við dýralækni um notkun þeirra til undaneldis, engin gerði með stíum í hvolpahúsi, þrír chihuahua hundar í gluggalausu rými, óhrein teppi í körfum. Í hvolpahúsi voru 4 ungir hundar saman, Cavalier, Cotton, Chinese Crested og Papillon sem deildu einu bæli og var megn ammónóaklykt.
Árið 2015 voru 24 brot á reglugerðum voru skráðar
Svipuð brot og árið áður, of lítil gerði, ekki aðgengi að útigerðum, hreinlæti ábótavant, mikil ammóníakslykt og mikill hundasaur í hundahúsunum, lítil sem engin umhverfismótun fyrir hvolpa, hundarnir fá ekki nægilega hreyfingu, skráningar á fóðrun og heilsufarsskoðunum ófullnægjandi eða ekki til staðar.
Franskur bolabítur í Nýjahúsi afétinn samkvæmt eiganda og var því of grannur á skoðunardögum. Ræktunarhundarnir eru ekki húsvanir. Þeir losa saur og þvag um allt gólf (á dagblöðunum og utan þeirra) í innistíum. Fóðurskálar og sums staðar vatnsskálar og einstaka nagbein eru staðsett innan um allan saurinn. Auk þess eru hvolparnir fóðraðir beint á gólfið(AB-mjólk og þurrfóður). Skoðunarmönnum var tjáð að útigerðin væru þrifin u.þ.b. tvisvar í viku, og þess á milli væri saur handtíndur úr gerðunum. Á skoðunardögum mátti víða sjá saur í gerðunum. Sums staðar lágu nagbein í saurnum. Stíurnar höfðu nýlega verið þrifnar. Þrátt fyrir það var ekki gott loft í hundahúsunum. Eigandi sýndi eftirlitsmönnum teppi sem hún hafði nýlega þvegið í þvottavél. Í því voru enn saur- og fóðurrestar. Umhverfi ræktunarhundanna er afar einsleitt. Þeir sjá aðeins veggi, bæði í stíum og útigerðum. Á skoðunardögum var það undantekning ef sjá mátti leikföng hjá hundunum. Engin önnur afþreying var til staðar fyrir þá. Í hvolpahúsi 2 voru 2 franskir bolabítshvolpar (5 mán) einir í stíum, í hvolpahúsi 3 var einn Maltese hvolpur (4 mán) einn í stíu. Í Nýjahúsi voru 6 fullorðnir franskir bolabítar einir í stíum. Hvolparnir sjá aðeins stíuna innanverða og fara út á pall á meðan stíur þeirra eru þrifnar. Það virðist nánast vera eina útivistin sem þeir fá. Í Sessubili eru 7 langhundar í 2 stíum sem ekki hafa beinan aðgang að gerðum. Þessir hundar eru settir út í gerði meðan stíurnar eru þrifnar (u.þ.b. 1-2 klst á dag skv. eiganda). Engar skráningar af nokkru tagi fundust um þessa hunda.
2016 átti að loka Dalsmynni
22. júní voru aðeinst þrjú brot lagfærð úr fyrri heimsókn og tvö fyrri brot hættu að vera brot með nýrri reglugerð. 24. ágúst var farið yfir 20 atriði þar sem Dalsmynni braut reglugerðir. Sannaðist að minnsta kosti ein tík var pöruð eftir að pörunarbann tók gildi þann 14. janúar 2016 þar sem tíkin kom úr einangrun 18. janúar.
Matvælastofnun ítrekar þó að þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að grípa til að tryggja velferð hunda á hundaræktunarbúinu Dalsmynni byggjast fyrst og fremst á þeim athugasemdum er varða aðbúnað og umhirðu þeirra hunda sem þar eru haldnir. Athugasemdir varðandi brot á ákvörðun um pörunarbann eru einungis viðbót við þann mikla fjölda frávika sem gerðar hafa verið við hundahaldið og sýna að mati stofnunarinnar skilnings- og virðingarleysi aðila málsins til þeirra ráðstafana sem gripið hefur verið til og til þeirra skyldna sem hann hefur gagnvart þeim hundum sem eru í hans umsjón.
MAST tilkynnti Dalsmynni að stofnunin myndi taka hundana 12. september 2016, að eigendur Dalsmynnis mættu ráðstafa hundunum sjálfir, annað hvort með því að selja, gefa eða aflífa eða bæta úr öllum þeim frávikum sem fram komu í skýrslunni til að koma í veg fyrir vörslusviptingu. 12. september voru alls 11 hundar(8 tíkur og 3 rakkar) í Nýjahúsi í Dalsmynni. Engir aðrir hundar voru á búinu og öll önnur hundahús voru tóm. Að sögn eiganda hafði öðrum hundum búsins ýmist verið komið fyrir á önnur heimili til frambúðar eða lógað. Engir heimilishundar voru í Dalsmynni á skoðunardegi samkvæmt eiganda. Vegna þessarar fækkunar á hundum stóðst Dalsmynni skoðun MAST.
Segist vera hætt hundarækt
Mast hefur ekki opinberað skýrslur eftir 12. september 2016. Þær eru þó í vinnslu samkvæmt upplýsingum Hundasamfélagsins. Ásta segir í viðtali við Vísi að hún sé hætt hundarækt og hafi skilað inn kennitölunni í janúar eða febrúar á þessu ári. Ríkisskattstjóri virðist þó ekki vera búinn að uppfæra kennitölu fyrirtækisins. Hún er enn skráð virk (18. apríl 2018) og einnig hefur Hundasamfélagið undir höndunum skjáskot sem sýnir Facebook síðu Dalsmynnis segjast ekki vera hætt að rækta þann 25. mars.