1) Vakthundagelt er tvíþætt. Annars vegar þjónar það þeim tilgangi að vara aðra fjölskyldumeðlimi við því óvelkomna áreiti sem hundurinn hefur orðið var við. Hins vegar lætur það þetta óvelkomna áreiti (t.d. gesti, mögulegan innbrotsþjóf eða verra… kött) vita að hundurinn er meðvitaður um það. 2) Kröfugelt er sú aðferð sem hundar nota til að láta eiganda sinn vita að þeir vilji eitthvað NÚNA. Algengar kröfur sem hundar setja á eigendur sína eru til dæmis: ,,Opnaðu hurðina NÚNA“. ,,Sýndu mér athygli NÚNA“. ,,Hleyptu mér út NÚNA“. 3) Gelt út af óöryggi á sér stað þegar hundur er óröuggur út af einhverju í nálægu umhverfi hans. Þá geltir hundurinn til dæmis til að segja: ,,Ég er hættulegur! Ekki koma nær!“ 4) Gelt út af leiðindum getur átt sér stað þegar daglegum þörfum hundsins er ekki sinnt. Hundinn skortir líkamlega eða andlega útrás. Hundurinn verður æstur og ör vegna leiða. 5) Gelt þegar hundurinn er einn heima útskýrir sig sjálft. Hundurinn (hvolpur eða fullorðinn) geltir þegar hann er skilinn eftir einn heima. En hvað getum við gert í þessu? Hér koma lausnir við fyrrgreindum vandamálum.

#1: Vakthundagelt

Kenndu hundinum hvað hann á að gera í staðinn fyrir að gelta á allt áreitið í kring. Ef hundurinn geltir alltaf þegar það er bankað á hurðina getur þú til dæmis kennt honum að sækja eitthvað ákveðið dót eða að leggjast á mottuna sína í staðinn fyrir að gelta. Svo verðlaunar þú hann með nammi eða leik. Byrjaðu á að gera æfingar með upptökuhljóði af dyrabjöllu og hækkaðu hljóðið smám saman. Það er mjög sniðugt að fá vini til að koma og banka/dingla. Þá getur þú einbeitt þér að hundinum án þess að þurfa að heilsa upp á gestinn. Þá getur þú líka sagt vinunum nákvæmlega hvernig þeir eiga að haga sér (snúa baki í hundinn ef hann hoppar, ekki sýna hundinum athygli fyrir gelt og hopp). Þegar hundurinn er orðinn góður í þessu getur þú farið að gera æfingar með raunverulega gesti. Clara-baby-on-blue-mat Önnur aðferð er að setja hundinn í time-out (hlé) þegar hann geltir.  Þegar hundurinn byrjar að gelta gefur þú honum fyrst viðvörun. Notaðu alltaf sama orð, til dæmis ,,Hafðu hljótt“. Um leið og hundurinn geltir aftur merkir þú þá hegðun með því að segja ,,Æj æj“ og færir hundinn í annað rými, til dæmis í búrið sitt, svefnherbergi eða annan stað sem er í burtu frá gestunum eða því sem hundurinn er að gelta á. Ekki nota búr ef hundurinn er ekki hrifinn af því að vera í búri. Þetta á ekki að vera neikvæð upplifun fyrir hundinn, fyrir utan það að hann mun ekki hafa aðgang að því sem hann langar að komast að (gestir). Sömuleiðis viljum við ekki tengja búr (eða eitthvað ákveðið herbergi) við refsingar. Þegar þú hefur gert þetta nokkrum sinnum byrjar hundurinn að fatta að það var geltið sem olli því að hann var tekinn í burtu frá stuðinu. Þá lærir hann að hætta að gelta þegar hann heyrir viðvörunina. Þú getur sameinað þessar tvær aðferðir. Ef hundurinn fer á mottuna/gerir það sem þú baðst um, er hann verðlaunaður. Ef hann gerir það ekki, fær hann eina viðvörun (Vertu hljóður) og ef hann hlýðir því ekki er hann sendur í time-out (Æj æj). Ef hundurinn þinn er mjög geltinn og hrekkur upp við minnsta áreiti er líklegt að hann þurfi meiri umhverfisþjálfun. Vertu dugleg/ur að fara með hann á nýja staði. Bjóddu fólki í heimsókn og kynntu hann fyrir öðrum hundum og dýrum. Haltu þessari upplifun jákvæðri með því að verðlauna hann með nammi eða leik þegar hann stendur sig vel. 3-keys-to-stop-the-barking

#2: Kröfugelt

Þegar hundar vilja eitthvað, prófa þeir sig áfram með alls kyns hegðun til að sjá hvað virkar. Þeir eru fljótir að fatta að gelt virkar mjög vel. Ef þú vilt ekki að hundurinn þinn gelti, hættu að verðlauna gelt með því að veita honum athygli, opna hurðir, hleypa hundinum út úr búrinu og svo framvegis. Punktur. Ekki hleypa geltandi hundi út í garð. Ekki hleypa geltandi hundi út úr búrinu sínu fyrr en hann þegir. Hunsaðu hund sem geltir á þig. Ef þú hefur verðlaunað gelt hingað til, verður geltið verra áður en það hættir. Hvað sem þú gerir, alls ekki gefast upp þegar hundurinn geltir hærra/meira. Þá lærir hann einfaldlega að hann þurfi bara að gelta hærra/meira til að fá það sem hann vill. Farðu líka að taka eftir því þegar hundurinn þinn er hljóðlátur. Verðlaunaðu hann þegar hann liggur rólegur, þegar hann nagar bein eða dót og sýnir næga sjálfstjórn til að vera hljóður.

#3: Gelt út af óöryggi

Til að koma í veg fyrir gelt út af óöryggi er gríðarlega mikilvægt að umhverifsþjálfa hunda vel á meðan þeir eru hvolpar. Kynntu hvolpinn fyrir alls kyns fólki, hundum og öðrum dýrum. Það er nánast ómögulegt að gera of mikið af þessu. Farðu með hvolpinn á nýja staði, láttu hann upplifa nýja hluti með því að finna lykt af nýjum hlutum og sjá nýja hluti. Haltu þessu jákvæðu og skemmtilegu með nóg af hrósi, nammi og leik. dog-barking Ef þú ert með fullorðinn hund sem fékk ekki næga umhverfisþjálfun ertu alls ekki of sein(n) að byrja. Þjálfunin mun þó taka lengri tíma ef hundurinn er nú þegar hræddur við eitthvað. Þá þarftu að breyta undirliggjandi tilfinningu hundsins og breyta neikvæðri upplifun í jákvæða upplifun. Ef hundurinn er hræddur við ókunnuga karlmenn skaltu gefa honum fullt af nammi og jafnvel kvöldmatinn sinn í hæfilegri fjarlægð við ókunnugan karlmann. Haltu ykkur á þeim stað sem hundinum líður vel á og smám saman getið þið unnið ykkur nær og nær. Láttu hundinn sjá karlmanninn, byrjaðu svo að dæla nammi í hundinn. Um leið og karlmaðurinn er farinn úr augnsýn skaltu hætta að gefa nammi. Það getur tekið góðan tíma að venja fullorðinn hund við það sem hann er hræddur við.

#4: Gelt út af leiðindum

Ef þú hefur ekki tíma til að hugsa um hund, ekki fá þér hund. Hundar spara þér ekki tíma. Þeir taka tíma frá þér. Það er engin skyndilausn til við þessu vandamáli. Þú þarft að sinna þörfum hundsins. Hundar þurfa göngutúra, þeir þurfa að fá að nota heilann og þeir þurfa félagsskap frá fjölskyldunni sinni. hundur-girding

#5: Gelt þegar hundurinn er einn heima

Hér er forvörn besta lausnin. Þegar þú færð þér hvolp eða nýjan hund skaltu strax venja hundinn á að það sé eðlilegt að þú komir og farir. Ekki venja hundinn á að þú sért alltaf á svæðinu. Gerðu æfingar þar sem þú ferð í burtu í örstutta stund og kemur svo aftur. Ef hundurinn byrjar að gelta, skaltu bíða þar til hann hefur þagað í að minnsta kosti 30 sekúndur áður en þú ferð aftur inn. Annars getur hundurinn haldið að þú hafir komið vegna þess að hann gelti. Ef þú þarft að skilja hann eftir í lengri tíma getur verið gott að þreyta hann með heilaþrautum eða göngutúr. Hundar eru miklar félagsverur. Þeim líður ekki vel þegar þeir eru mikið einir. Ef þú vinnur lengi á hverjum degi (6+ klst) skaltu skoða möguleikann á því að fá einhvern til að fara í göngutúr með hundinum þínum á meðan þú ert í vinnunni. Enn betra væri að fá einhvern til að passa hundinn á meðan þú ert í vinnunni, eða hluta dags. reid1 Auktu við hreyfingu hundsins og andlega orkulosun. Farið í gönguferðir, reipitog og feluleik og leyfðu hundinum að hitta aðra hundavini þar sem þeir geta leikið sér. Láttu hundinn hafa svolítið fyrir því að ná matnum sínum, til dæmis með því að troða honum inn í Kong. Þú getur jafnvel falið Kong-ið og sagt honum að finna það þegar þú ferð í vinnuna. Dreifðu matnum yfir grasið í garðinum eða gefðu honum einn bita í einu með því að æfa kúnstir. Eigðu nægt úrval af nagdóti sem hundinum finnst skemmtilegt. Feldu uppáhalds nagdótið hans í íbúðinni og þegar hann finnur það, verðlaunaðu hann þá með leik. Gefðu dótinu hans nafn og kenndu honum að aðgreina dótið sitt eftir nafni.  Biddu hann svo um að rétta þér eitt ákveðið dót þegar þú kemur heim. Ef hundurinn er mjög hræddur þegar hann er einn heima er hann líklega með aðskilnaðarkvíða. Þá þarf að hafa samband við hundaatferlisfræðing til að vinna í því vandamáli. Birt með leyfi Jean Donaldson]]>


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.