hegðunar, staðsetningar og vegalengdarinnar sem hundurinn fer þegar hann er týndur. Félagslyndur hundur sem er vís til að labba upp að næsta einstaklingi sem kallar á hann er yfirleitt ekki lengi týndur í þéttbýli. Hann er fljótlega tekinn upp í bíl, eða inn í hús og sett inn auglýsing á netið. Almennt ferðast þannig hundur stutta vegalengd og eru í hvað minnstu hættu á að týnast í lengri tíma eða verða fyrir bíl. Ef hundur stingur af út frá ótta, til dæmis vegna flugelda, verður hinn félagslyndasti hundur hræddur og óöruggur og mun líklega ekki koma upp að neinum, jafnvel ekki eiganda sínum. Það versta sem eigandi getur gert í þessum aðstæðum er að kalla og hlaupa á eftir hundinum, það gæti hrætt hundinn enn meira og hann tekið aftur á rás. Öruggasta leiðin til að nálgast hunda sem eru í þessu ástandi er að notast við róandi merki til að lokka hundinn til þín. Ef hundurinn sér þig, sestu niður og horfðu til hliðar, það er gott að þykjast vera að borða nammi og láttu skrjáfa í plastpoka ef þú getur. Ekki gera neinar snöggar hreyfingar þótt hundurinn sé að nálgast þig. Ef hundurinn er ekki að koma til þín getur verið sniðugt að skokka í öfuga átt við hundinn með því að taka 2-3 skref áður en þú byrjar að hlaupa, hlaupa um 10 metra og leggjast svo á grúfu með bakið í hundinn.
Hvað skal hafa í huga varðandi ákvörðun á stærð leitarsvæðis
Það eru sjö áhrifaþættir sem skal alltaf hafa í huga sem munu hafa áhrif á hversu langt hundur mun ferðast: Skapgerð hundsins, ástæður af hverju hundurinn er týndur, veður, umhverfi, útlit, aldur og fólksfjöldi.

Skapgerð hundsins
Hvernig hundur bregst við ókunnugum mun hafa áhrif á hversu langt hann ferðast og hversu lengi hann verður týndur. Hægt er að flokka hunda í þrjá mismunandi flokka: Félagslyndur, Óöruggur og Xenophobic. Félagslyndur hundur: Mætir fólki með dillandi skott og mun líklega koma upp að fyrstu manneskjunni sem kallar á hann. Þessir hundar ferðast almennt ekki langt ef þeir eru í þéttbýli . Óöruggur: Hundum sem eru óöruggir í kring um ókunnuga munu almennt reyna að forðast manneskju sem reynir að kalla á hann meðan hann er hvað hræddastur en eftir að þeir róast niður koma þeir til manns í rólegheitum. Þeir geta ferðast langar vegalengdir en hægt er að ná með mat og þolinmæði. Það er algengt að fólk haldi að einhver hafi farið illa með þessa hunda miðað við hvernig þeir bera sig í kring um ókunnuga. Xenophobic (hræddir) hundar: Xenophobia þýðir „hræðsla eða hatur á öllu skrítnu eða ókunnugu“. Hundar með svona skapgerð eru líklegri til að fara langar leiðir og er mikil hætta á að þessir hundar hlaupi fyrir bíla. Þessir hundar eru næstum alltaf taldir hafa orðið fyrir ofbeldi vegna þess hversu hræddir þeir eru við ókunnuga. Þessir hundar eru líklegastir til að koma ekki til eiganda sinna og í verstu tilfellum þarf að veiða þessa hunda í búr eða loka þá af einhvers staðar til að ná þeim.
Ástæðan af hverju hundurinn er týndur
Þrjár algengustu ástæðurnar fyrir því af hverju hundur er týndur eru ævintýraferð, ástar leit og ofsahræðsla. Ævintýraferð: Ævintýraferð er þegar hliðið á garðinum er óvart skilið eftir opið. Sumir hundar myndu vissulega ekki fara út fyrir girðinguna þrátt fyrir að hliðið sé opið, en aðrir hundar geta hreinlega ekki staðist góðu lyktina af umhverfinu eða viljann til að skoða sig um. Þrátt fyrir að þessir hundar séu ekki markvisst að strjúka og fara almennt ekki nema nokkrar húsaraðir frá heimilinu þá getur lykt dregið þá jafnvel nokkra kílómetra séu þeir ekki stoppaðir af. Ástar leit: Ástar leit er algengt vandamál hjá ógeldum rökkum og tíkum. Þessir hundar eru markvisst að reyna að stinga af. Þeir munu reyna að klifra yfir/ grafa sig undir grindverk, opna hlið eða hurðar til að komast út. Rakkarnir eru almennt með ákveðna staðsetningu í huga þegar þeir sleppa út og finnast yfirleitt nálægt næstu lóðatík. Tíkurnar gætu hins vegar farið að ferðast svipað og ævintýraferð í leit af rakka sem er til í tuskið. Ofsahræðsla: Ofsahræðsla er þegar hundurinn fer í grunn varnarviðbragðið flótti (Varnarviðbrögðin eru flótti eða árás) tekur yfir og hundurinn hleypur í burtu. Þetta getur komið fyrir vegna þriggja ástæðna: Xenophobic (Almennt hræddur hundur týnist), hávær hljóð (þrumur, skothljóð, flugeldar) eða vegna hræðilegrar upplifunar (verður fyrir bíl, sleppur út úr brennandi húsi, sleppur úr pössun á ókunnugum stað o.s.frv.). Þessa hunda er almennt erfiðast að ná þar sem þeir hlaupa í blindni og geta ferðast langar vegalengdir, forðast fólk og jafnvel svara ekki eigendum sínum.

Veður
Hundur sem sleppur á sólríkum sumardegi er líklegri til að fara lengra en hundur sem týnist í snjóstormi. Týnist hundur í vondu veðri er líklegra að hann leiti sér skjóls og haldi sig þar, þar til veðrið gengur yfir.
Umhverfið
Hundur sem týnist í þéttbýli fer ekki eins hratt yfir og er mun líklegri til að vera tekin inn af gangandi vegfarendum. Girðingar, hús og garðar valda því að hundurinn getur ekki farið beina leið eins og hann vill ef hann er að strjúka vegna ofsahræðslu, hann mun þá reyna að finna sem auðveldustu leiðina úr hávaða og umferð yfir í rólegra umhverfi.
Útlit hundsins
Fólk er líklegra til að hjálpa smáhundi, labrador eða Border Collie en til dæmis Husky, Rottweiler eða Schafer. Einnig er enn líklegra að fólk taki smáhund inn til sín en stóran hund. Til dæmis vegna þess að það er auðveldara að fara með smáhund á dýraspítalann til að láta lesa örmerkið eða af hræðslu við að stór hundur muni taka of mikið pláss heima fyrir á meðan verið er að leita að eigandanum.
Aldur
Hvolpar hafa nokkrum sinnum týnst hérlendis. Þeir hafa allir átt það sameiginlegt að finnast innan nokkur hundruð metra frá staðnum sem hann týnist. Í öllum tilfellum var hvolpurinn undir eða inni í einhverju og faldi sig vel, hvolparnir hafa alltaf fundist þegar einhver sá þá, þeir svara ekki kalli, ekki einu sinni frá eiganda sínum. Ef hundurinn er orðinn fullorðinn og er hraustur eru meiri líkur á að hann ferðist langar leiðir en ef um væri að ræða eldri hund með gigt eða aðra heilsufarskvilla.
Fólksfjöldi á svæðinu
Hundur sem sleppur í miðri Reykjavík ferðast yfirleitt ekki langt áður en einhver sér hann og annaðhvort nær honum eða setur inn auglýsingu. Sami hundur mun ferðast mun lengra ef hann sleppur í Heiðmörk einfaldlega af því það er ólíklegra að fólk sjái hann og geti látið vita hvar hann er. Af sömu ástæðu getur hundur sem sleppur að nóttu til ferðast lengra í Reykjavík en ef hann myndi týnast um hábjartan dag.
Hegðun eiganda
Það getur komið fyrir að eigandi valdi því að hundurinn komist seinna heim en ella. Stundum vill hundaeigandi „bíða og sjá“ hvort hundurinn skili sér heim í stað þess að fara út og leita af hundinum eða setja inn auglýsingu á Facebook. Það er mun erfiðara að finna hund sem er búinn að vera týndur í nokkrar klukkustundir en hund sem er nýsloppinn út. Aðrir verða blindir á aðra möguleika og eru vissir um að hundurinn sé á ákveðnum stað, eða að einhver hafi tekið hann inn og fer því að leita á Facebook í stað þess að leita úti. Í sumum tilfellum neitar hundaeigandi að leita því hann hreinlega treystir sér ekki til þess eða ákveður of snemma að hundurinn gæti ómögulega lifað svona lengi af í náttúrunni. Eigendur geta fundið fyrir hjálparleysi og hætt að leita ef það finnur fyrir minnsta mótbyr, sérstaklega ef það fær að heyra frá fólki í kring um sig að „þetta var bara hundur“ eða „af hverju færðu þér ekki bara nýjan hund?“.
Við mælum líka með að lesa greinina: Hundurinn minn er týndur. Hvað á ég að gera?
Þessi grein er unnin upp úr grein frá Kat Albrecht. Hún hefur verið að leita að týndum gæludýrum síðan árið 1997 og þar áður starfaði hún við að leita að týndu fólki.