Einn algengasti misskilningur fólks um jákvæðar þjálfunaraðferðir er sá að þær snúist eingöngu um að verðlauna hegðun sem þú vilt sjá meira af og hunsa þá hegðun sem þú vilt ekki sjá.
Vissulega er rétt að við verðlaunum þá hegðun sem við viljum sjá meira af. Að hunsa þá hegðun sem við viljum ekki sjá er þó fjarri því sem jákvæðar þjálfunaraðferðir snúast um og mikil einföldun. Auðvitað eru til dæmi um hegðun sem við hunsum en þetta er eitthvað sem notað er í undantekningartilfellum og yfirleitt eru til betri og fljótlegri aðferðir sem hægt er að nota.
Þetta er algengasta gagnrýnin sem ég sé um jákvæðar þjálfunaraðferðir og gefur í skyn að fyrst við notum ekki refsingar, þá höfum við engin önnur verkfæri. Það er þó fjarri sanni.

Að hunsa neikvæða hegðun er auðvitað ein hlið þess að notast við jákvæðar þjálfunaraðferðir.
Hér er eitt dæmi: Hundurinn þinn sníkir mat við matarborðið. Hingað til hefur hann reglulega fengið matarbita og hann situr límdur við fætur þér í hvert skipti sem þú sest við matarborðið. Þú ákveður að hunsa þessa hegðun.
Það sem gerist fyrst er að hundurinn verður ákveðnari. Í stað þess að stara á þig með stóru, brúnu augunum, ákveður hann að leggja höfuðið á læri þitt. Það virkar ekki svo hann ýtir í þig með loppunni. Það virkar ekki svo hann geltir lágt. Það virkar ekki svo hann geltir hærra og ýtir ítrekað í þig með loppunni. Það er hér sem flestir gefast upp. Ef þú gefst hins vegar ekki upp, segir fræðin okkur að tíðni hegðunarinnar (að sníkja) mun smám saman minnka, og að lokum hverfa.

Þetta getur virkað. En til að þetta virki er krafa um skilyrðislausa þátttöku allra sem sitja við matarborðið. Þú mátt aldrei missa neitt á gólfið, aldrei gefa hundinum smá bita, ekkert svindl. Þetta reynist flestum erfitt.
Þegar við hunsum ákveðna hegðun hunda, erum við nefnilega að vinna með (oft margra ára) fyrri reynslu hundanna okkar. Þeir hafa oft fengið mat frá matarborðinu og vita að það er matur í boði. Það getur tekið langan tíma fyrir þá að gefast upp.
En ef við hunsum ekki, hvað getum við þá gert?

Við getum notað mun árangursríkari og fljótlegri aðferðir en að hunsa. Það er tvennt í boði. Við getum notað stjórn á aðstæðum og við getum notað aðferð sem ég kalla Nýtt í staðinn.
Með stjórn á aðstæðum er í þessu dæmi einfaldlega átt við að koma í veg fyrir að hundurinn hafi aðgang að eldhúsinu. Þá getur hann ekki sníkt. Þetta er einfaldasta og fljótlegasta aðferðin og í raun engin þjálfun bakvið hana.
Hin aðferðin er Nýtt í staðinn. Í stað þess að hunsa hundinn eða skamma hann (segja hvað hann á ekki að gera), segjum við hundinum hvað hann á að gera.
Í stað þess að hunsa sníkjur, gefum við hundinum nýtt verkefni. Hann á að liggja rólegur í bælinu sínu.

Þegar við notum þess aðferð verðum við að passa að setja ekki kröfur á hundinn okkar sem hann ræður ekki við. Ef hundurinn þinn kann ekki að leggjast, geturðu varla sett þá kröfu á hann að þú getir sent hann í bælið þar sem hann á að liggja kyrr. Ef hundurinn þinn kann að liggja en hann kann ekki að bíða kyrr, ertu með sama vandamál.
Þú byrjar því alveg á byrjuninni. Þjálfar upp sterka ,,liggja“ æfingu og svo kennirðu hundinum að vera kyrr. Þú getur slegið tvær flugur í einu höggi með því að gera þessar æfingar með hundinn á bæli. Hundurinn hefur aðeins aðgang að bælinu þegar þið þjálfið þessa æfingu. Ef þú gerir æfinguna rétt, færðu hund sem elskar að liggja kyrr á bælinu. Eftir nokkrar æfingar geturðu sagt hundinum að liggja á bælinu, réttir honum fyllt kong og voilà, hundurinn liggur stilltur á meðan þú borðar. Þetta tekur mun styttri tíma en að hunsa hegðunina.
Annað vandamál við að hunsa hegðun er að oft er hundurinn að gera eitthvað sem er mjög verðlaunandi frá umhverfinu einu saman (e. self-rewarding). Dæmi um þetta er hundur sem hoppar með framlappirnar upp á borð til að stela mat.
Það gerir ekkert gagn að hunsa slíka hegðun þar sem hundurinn græðir reglulega eitthvað gott, sem veldur því að hann heldur þessu áfram.
Ein leið til að stöðva þennan leiðinlega ávana er að gæta þess að það sé aldrei neitt á borðinu sem hundurinn nær í (stjórn á aðstæðum) og að auki geturðu kennt hundinum að það séu mun meiri líkur á að fá eitthvað gott með því að þefa af gólfinu. Feldu gotterí hér og þar á gólfinu, á sama tíma og þú gætir þess að geyma ekkert matarkyns sem hundurinn nær í á borðinu.
Annað dæmi er hundur sem hoppar upp á fólk sem kemur í heimsókn. Það tekur hund, sem hefur hoppað upp á fólk í mörg ár, óralangan tíma að hætta því ef eina aðferðin sem er notuð, er að hunsa. Kenndu honum eitthvað nýtt í staðinn. Best er að nota eitthvað sem hann getur ekki gert á sama tíma og hann hoppar. Kenndu hundinum að eina leiðin til að fá athygli, er að sitja með rassinn límdan við gólfið. Um leið og rassinn fer af gólfinu, snýr gesturinn við honum bakinu. Um leið og rassinn snertir góflið, fær hann athygli og klapp.

Þessar aðferðir virka á nánast öll þjálfunarvandamál. Það eina sem þú þarft að hugsa er: ,,Hvað vil ég frekar að hundurinn minn geri“.