8 algeng mistök í taumgönguþjálfun

Taumganga er ekki eitthvað sem kemur náttúrulega hjá hundum. Hundar hugsa meira um að elta hvern annan, elta lykt og rölta þannig frá einum stað til annars. Þeir eru ólíklegir til að stilla sér upp hlið við hlið og ganga beint áfram, án þess að pæla nokkuð í umhverfi sínu. Það er því skiljanlegt að margir hundaeigendur lendi í vandræðum þegar þeir smella stuttum taum á hundana sína og ætlast til þess að hundarnir gangi fallega við hlið eiganda síns. Hér eru nokkur algeng mistök.

#1: Við kennum hundinum ekki hvað það er sem við viljum að hann geri

Hvað er það nákvæmlega sem við viljum að hundurinn geri? Viljum við að hann gangi slakur í taum, þar sem hann fær að þefa og skoða umhverfið svo lengi sem hann togar ekki í tauminn? Eða viljum við að hann gangi við hæl? Ef við viljum að hundurinn gangi við hæl er góður grunnur að kenna hundinum augnsamband. Byrjið á að æfa það heima og færið ykkur smám saman í erfiðara áreiti. Það er ekki hægt að ætlast til þess að hundur geri eitthvað sem hann hefur aldrei lært að gera.

 

573149_orig#2: Við kippum, klípum og kyrkjum ánægjuna úr göngutúrnum.

Þegar við höfum ekki kennt hundinum að ganga fallega í taum er auðvelt að detta í þá gildru að nota flýtilausnir eins og kyrkingarkeðjur eða annan búnað sem þrengir að hálsi eða líkama hundsins. Þó svo að þessi tæki geti vissulega virkað til að fá hundinn til að hætta að toga í tauminn þá geta þau búið til önnur og stærri vandamál, t.d. árásargirni gagnvart hundum og fólki í göngutúrum eða líkamlegra áverka.

Sömuleiðis viljum við ekki venja okkur á að nota tauminn sem stjórntæki. Notum röddina og hreyfingar okkar sem stjórntæki. Ekki kippa í tauminn þegar hundurinn togar. Ef þér finnst erfitt að venja þig af því að kippa í tauminn, bittu tauminn þá við mittisól og hafðu hendurnar frjálsar. Þannig getur þú ekki kippt í tauminn og neyðist til að nota aðrar og betri lausnir.

10014977_10202356390043354_20241261_o#3: Við skiljum nammið eftir heima.

Það er mikilvægt að hafa nammi á sér þegar maður ætlar að þjálfa hundinn. Þó svo að nammi sé ekki notað mikið í slakri taumgönguþjálfun (þó mikið notað í hælgönguþjálfun), geta alltaf komið upp aðstæður þar sem mikilvægt er að verðlauna hundinn fyrir að bregðast rétt við. Þetta getur til dæmis verið þegar hundur mætir hjóli í fyrsta skipti eða þegar aðrir hundar gelta að hundinum okkar. Ef við erum tilbúin með nammi og hrósum hundinum okkar fyrir að sýna okkur athygli í þessum aðstæðum, eru meiri líkur á að hann muni bregðast eins við næst þegar þetta gerist. Ef við erum hins vegar ekki með nammi eru meiri líkur á að hundurinn bregðist illa við þessu nýja áreiti.

#4: Við notum rangan búnað.

Hálsólar eru frábær staður fyrir merkispjald hundins. Í göngutúrum ætti hins vegar að nota beisli. Þegar hundur er í beisli á hann mun auðveldara með að slaka á í göngutúr. Það er vegna þess að álagið dreifist rétt um líkamann, í staðinn fyrir að koma allt á hálsinn. Það er þó mikilvægt að beisli passi rétt á hundinn. Beislið á ekki að vera of vítt um hálsinn, það má ekki nuddast utan í handakrika hundsins en samt á það ekki að liggja svo aftarlega að það ýti á magann ef hundurinn togar. Fáið aðstoð fagfólks við að velja beisli sem passar rétt á ykkar hund. Ég mæli t.d. með Balance beislunum sem fást á Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti.

boxerharnessfrontBeisli eru sérstaklega mikilvæg fyrir þá sem nota útdraganlega tauma. Höggið sem kemur á háls hundsins ef hann hleypur að enda taumsins er svakalegt og það getur valdið alvarlegum meiðslum.

Það eru til mannúðleg tæki sem hjálpa til við taumgöngu. Þar má til dæmis nefna beisli sem krækt er í að framan. Alls ekki kaupa beisli sem þrengja að handvegi hundsins þegar hann togar, þau eru sársaukafull fyrir hundinn.

 

 

 

 

25mapspix-master768#5: Við pælum meira í símanum en hundinum.

Skildu símann eftir heima. Ef þú þarft nauðsynlega að hafa símann á þér, hafðu hann þá í vasanum. Símar trufla göngutúrinn og koma í veg fyrir að þú hugsir um hvað hundurinn þinn er að gera og hvað er að gerast í umhverfi hundsins.

#6: Við neitum hundinum of oft um félagsleg samskipti

Allt frá því hundar eru hvolpar ættum við að kenna þeim að halda yfirvegun þegar þeir mæta fólki og öðrum hundum í göngutúr. Hvolpanámskeið eru góð til að þjálfa þetta. Eldri hundar geta líka lært að mæta öðrum á kurteisan hátt í göngutúr. Hundar ættu að fá að þefa af áhugaverðum hlutum og hitta skemmtilegt fólk og hunda í göngutúr. Það þýðir þó ekki að hundurinn eigi að þefa af öllu eða að hann eigi að hitta allt og alla sem hann mætir. Hundurinn þarf bæði að kunna að mæta fólki/hundum og að hunsa það/þá. Ef hundurinn þinn geltir/vælir þegar hann sér aðra hunda eða fólk skaltu fá aðstoð hundaþjálfara til að laga það vandamál.

sniffing-butts

#7: Við göngum of hægt.

Prófaðu að ganga hraðar. Fólk hefur almennt mun hægari gönguhraða en hundar. Oft er nóg að gefa aðeins í til að hundurinn haldi einbeitingu í að ganga fallega í taum.

IMG_1158-280x210#8: Við gleymum af hverju við erum úti að ganga með hundinum.

Þetta er í raun mikilvægasti punkturinn. Göngutúrinn er ekki eitthvað sem við gerum til að komast frá stað A til staðar B. Göngutúrinn á að vera skemmtilegur fyrir bæði okkur og hundinn. Fyrir hundinn snýst göngutúrinn um að þefa. Hann þefar af alls kyns hlutum sem hann hefur ekki aðgang að heima hjá sér. Leyfðu honum að njóta þess. Gakktu stuttan spöl og taktu svo pásu þar sem þú býður hundinum að þefa í rólegheitum. Hundar hafa mun næmara lyktarskyn en fólk og því getur verið unun að fylgjast með þeim fá upplýngar úr umhverfi sínu með því að nota nefið.

Förum með hundinum í göngutúr í staðinn fyrir að fara með hundinn í göngutúr. Njótum tímans saman.

 

Innblásið af http://blog.chron.com/michaelsdogs/2016/09/pulling-on-leash-8-common-dog-training-mistakes/

Athugasemdir

Berglind Guðbrandsdóttir

Berglind Guðbrandsdóttir

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands. Hún vinnur sem aðstoðarkona dýralæknis og hundaþjálfari.