lykt

#1 Finndu nammið

Þetta er einfaldur leikur sem eykur hæfni hundsins í að þefa. Það eina sem þú þarft að gera er að fela nammi á víð og dreif um íbúðina/húsið í þeirri von um að hundurinn muni þefa nammið uppi. Þegar hundurinn finnur fyrsta nammibitann (oft fyrir tilviljun) áttar hundurinn sig á því að hugsanlega séu fleiri nammibitar sem bíða eftir því að láta finna sig. Byrjaðu á því að setja tvo eða þrjá nammibita á augljósa staði, þegar hundurinn sér ekki til. Kallaðu svo á hundinn. Hundurinn kemur inn og verður himinlifandi með þennan góða fund. Endurtaktu leikinn og gerðu hann smám saman erfiðari. Fyrst seturðu bitana á gólfið, á augljósan stað. Næst gætirðu falið bita í hornum eða rétt undir borði. Því næst geturðu sett nammið undir teppi eða bakvið hluti. Þú getur jafnvel sett nammibita á milli pullanna í sófanum (ég mæli ekki með því ef þú átt hund sem krafsar gjarnan í hluti því hundurinn gæti farið að leita að nammi í sófanum). Leyfðu hundinum að finna nammið á sínum hraða. Ekki gefa hundinum vísbendingar eða hjálp. Fljótlega ferðu að sjá hundinn leita að namminu með nefinu, frekar en að horfa eftir vísbendingum. Veldu mismunandi staði og ekki gefa eins nammi í hvert skipti. Feldu stundum stóra nammibita og stundum litla. Stundum er bara eitt nami í boði og stundum eru margir nammibitar. Þannig heldurðu spennunni uppi. Það er frábær hugmynd að fela leikfang sem hægt er að fylla með nammi (til dæmis Kong). Þá þarf hundurinn fyrst að hafa fyrir því að finna leikfangið og svo að ná namminu út. Þú getur fært leikinn út í garð. Þá byrjar þú aftur frá byrjun og setur nammi á augljósan stað og færir þig svo upp í erfiðleikastigi.

#2 Veldu hendi

Veldu gott nammi sem passar í lófann. Kjúklingabitar og ostar virka betur en hart nammi þar sem lyktin er sterkari. Settu nammið í lófann, lokaðu honum og snúðu hendinni þannig að lófinn snúi niður. Sýndu hundinum hendina með namminu og leyfðu honum að þefa. Þegar hundurinn byrjar að þefa segir þú ,,Hvar er nammið?“, opnar lófann og hrósar. Endurtaktu þetta nokkrum sinnum. Bættu hinni hendinni nú við en þar verður ekkert nammi. Gættu þess að hundurinn sjái ekki í hvorri hendinni nammið er. Sýndu hundinum báðar hendurnar og leyfðu honum að þefa. Stilltu höndunum svo upp fyrir framan hundinn og segðu: ,,Hvar er nammið?“. Þegar hundurinn þefar af þeirri hendi sem nammið er í, skaltu opna lófann, gefa hundinum nammið og hrósa. Endurtaktu leikinn og hafðu nammið ýmist í hægri eða vinstri hendi. Ef þú vilt gera leikinn erfiðari geturðu látið aðra í fjölskyldunni taka þátt. Þannig bætirðu við fleiri höndum svo leikurinn verður erfiðari (og alltaf einungis eitt nammi í boði).

#3 Lykt af nýju dýri

Þessi leikur er sérstaklega skemmtilegur fyrir hunda með sterkt veiðieðli. Komdu fyrir lykt af nýju dýri í garðinum og sjáðu hvort hundurinn finni hana. Þú skalt bara stunda þennan leik úti þar sem hundar pissa oft yfir lykt af öðrum dýrum. 1017495_10200643503022249_588270022_n Til að byrja þarftu gamalt handklæði eða tusku sem þú ert tilbúin(n) að fórna í þetta verkefni. Fáðu að nudda handklæðinu við kött eða hund, sem vinur á. Mesta lyktin kemur ef þú getur sett lítinn pissudropa á handklæðið. Annars er nóg að nudda handklæðinu varlega við dýrið. Þegar þetta er komið skaltu fara með handklæðið út í garð (eða á það svæði sem þú vilt nota) og fela handklæðið bakvið tré eða á öðrum góðum stað. Gættu þess að hundurinn sjái þig ekki gera þetta. Hleyptu hundinum svo út og fylgstu með honum finna handklæðið. Ekki gefa honum neinar vísbendingar. Þú getur notað lykt af öðrum dýrum en hundum eða köttum. Ef það gengur vel geturðu fært þig í dýr eins og kanínur, páfagauka, hamstra eða hvað sem þér dettur í hug.

#4 Feluleikur

Í þessum leik eru verðlaunin…. þú! Þegar hundurinn er einhvers staðar í íbúðinni að dunda sér skaltu fela þig á óvenjulegum stað, sem hundurinn myndi aldrei búast við að finna þig á. Þú getur falið þig undir borði, undir rúmi eða inni í skáp. Svo skaltu bíða. Hundurinn mun leita að þér þegar hann fattar að þú ert horfin(n). Þegar hundurinn finnur þig hrósar þú og gefur nammi. Ef þú felur þig inni í skáp og þú heyrir í hundinum þefa fyrir utan skápinn skaltu verðlauna fyrir það. Þið getið líka farið í þennan leik úti. Veljið öruggt svæði fjarri umferð og öðrum hundum eða fólki. Fáðu vin til að halda í hundinn á meðan þú gengur í burtu og felur þig bakvið eitthvað. Eftir 30 sekúndur sleppir vinurinn hundinum og segir ,,Hvar er (nafnið þitt)?“. Hundurinn mun líklega fyrst hlaupa eftir minni en svo þegar hann finnur þig ekki, neyðist hann til að nota nefið. Þegar hann finnur þig skaltu hrósa eins og vitleysingur. Það er gott að vera með dót og nota leik sem verðlaun. Til að gera leikinn erfiðari geturðu aukið fjarlægðina og tímann sem vinurinn bíður áður en hann sleppir hundinum.

#5 Veldu rétta skál

Þessi leikur er mjög líkur ,,Veldu hendi“ leiknum. Í þetta sinn notarðu plastskálar. Veldu plastskál sem hundurinn hvolfir ekki auðveldlega. Leggðu skálina yfir nammibita á meðan hundurinn fylgist með. lykt3Hreyfðu skálina til og frá nokkrum sinnum og segðu svo ,,Hvar er nammið?“. Þegar hundurinn þefar af skálinni, lyftir þú henni upp og leyfir hundinum að borða nammið á meðan þú hrósar. Gerðu þetta nokkrum sinnum og bættu svo við annarri skál. Leyfðu hundinum að horfa á meðan þú setur nammi undir aðra skálina. Færðu skálarnar til og frá, stoppaðu svo og segðu ,,Hvar er nammið?“. Þegar hundurinn þefar af þeirri skál sem er með nammi, lyftir þú skálinni upp og hrósar. Endurtaktu nokkrum sinnum og bættu svo við þriðju skálinni. Þegar hundurinn þefar ítrekað af réttri skál getur þú verið viss um að hundurinn sé ekki að giska, heldur er hann að nota nefið.

#6 Hvar er kvöldmaturinn?

Flestir hundar fá að borða á sama stað á hverjum degi. Þeir heyra í matnum detta í dallinn og skjótast beint á sama stað og venjulega. Hvað haldið þið að myndi gerast ef maturinn yrði settur á nýjan stað? Svarið er einfalt. Hundurinn færi strax að leita að matnum. Hafið leikinn auðveldan fyrstu dagana. Setjið matardallinn í herbergið við hliðina á þeim stað sem hundurinn borðar venjulega. Prófið ykkur svo áfram og setjið dallinn hinum megin í íbúðina eða í nýtt herbergi. Skiptið um stað tvisvar til þrisvar sinnum í viku og gerið matartímann þannig skemmtilegri og fjölbreyttari fyrir hundinn.

#7 Öðruvísi lykt

Hundar hafa áhuga á að þefa uppi aðra lykt en af mat. Lykt eins og af lavender- og  valerianolíum er mjög spennandi fyrir hunda. Til að hefja þennan leik skaltu taka uppáhaldsdót hundsins, til dæmis bolta. Settu nokkra dropa af lavenderolíu á boltann og kastaðu honum nokkrum sinnum fyrir hundinn. Daginn eftir skaltu fela boltann, þegar hundurin sér ekki til. Til að auðvelda leitina skaltu setja dropa af olíu á niðurklippt blað og búðu til slóð að boltanum. Settu síðasta blaðið um 5-6 metra frá boltanum. Hleyptu hundinum svo að rýminu og segðu ,,Hvar er dótið?“. Flestir hundar finna blöðin og tengja þá lykt svo við boltann. Fylgstu með hundinum og hrósaðu þegar hann þefar af blöðunum. Þú mátt hjálpa hundinum að byrja með því að sýna honum fyrsta blaðið. Þegar hundurinn finnur boltann skaltu verðlauna hann með skemmtilegum leik. Til að gera leikinn erfiðari, fækkar þú blöðunum smám saman þar til hundurinn þarf þau ekki. Þegar hundurinn er orðinn mjög góður í þessum leik geturðu fært leikinn út í garð. Svo getur þú notað nýja lykt og nýtt dót og byrjað aftur frá byrjun. Þú getur notað hvað sem er, til dæmis kjúklingafitu, rjómaost, hnetusmjör eða hvað sem hundinum þínum finnst lykta vel.

Þýtt 15. desember af http://moderndogmagazine.com/articles/8-fun-scent-games-your-dog-will-love/80052            ]]>


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.