Mistök #1: Hundurinn er of háður nammi Hlýðir hundurinn þér bara ef þú ert með nammi í hendinni? Þú hefur hugsanlega kennt hundinum það, alveg óvart. Það er frábært að nota nammi í þjálfun. Það þarf samt að passa að byrja fljótlega að fækka skiptunum sem þú gefur nammi. Ef þú gerir það ekki verður hundurinn háður því að fá nammi í hvert skipti sem hann gerir eitthvað. Þannig lærir hann að vinna fyrir nammi en ekki ánægjunnar vegna. Rétti tíminn til að trappa niður nammið er þegar hundurinn er farinn að skilja hvað þú ert að biðja um. Dæmi: Þú heldur nammi beint fyrir framan nef hundsins.

Nammið virkar eins og segull á hundinn sem eltir nammið, sama hvað þú gerir. Þú færir nammið upp í áttina að höfðinu á hundinum, lengra og lengra þar til hundurinn sest niður. Um leið og hundurinn sest gefur þú honum nammið. Frábært! Hundurinn settist! Gerðu þetta nokkrum sinnum í viðbót en taktu nammið svo úr hendinni og gerðu nákvæmlega það sama með ekkert nammi. Hundurinn mun líklega halda áfram að elta hendina og setjast. Þú ert ekki að plata hundinn.

Hundar hafa það sterkt lyktarskyn að þeir átta sig á því að þú ert ekki með nammi. Þú ert hins vegar að kenna honum að fylgja handavísbendi. Þú ert einnig að kenna honum að það er fyrst þegar hundurinn er búinn að hlýða þér sem fær hann nammi. Nammi er gjaldmiðill, ekki mútur. Þegar hegðunin er fulllærð geturðu gefið nammi sjaldnar og sjaldnar. Að lokum þarftu einungis að gefa nammi öðru hvoru til að halda æfingunni við.

Mistök #2: Þú ferð of geyst í æfingarnar

Hundar læra smám saman, í mörgum litlum skrefum. Margir gæludýraeigendur gera þau mistök að fara of hratt í hlutina, í von um að ná glæstum markmiðum á stuttum tíma. Dæmi: Þú hefur notað 10 metra línu til að kenna hundinum þínum innkall. Dag nokkurn smeygjir hundurinn þinn sér út um útidyrahurðina og er rokin á vit ævintýranna. Þú kallar á eftir honum en hann brunar í hina áttina sem endar á þreytandi eltingaleik. Þú hefur þegar æft innkall í langri línu og þar sem þú hefur stjórn á aðstæðum. Þegar þú hoppar fram hjá þeim parti af þjálfuninni að bæta smám saman við meira áreiti og truflun, getur þú ekki ætlast til þess að hundurinn hlýði í akkurat þeim aðstæðum. Þarna myndir þú þurfa að æfa hundinn í margs konar umhverfi þar sem þú bætir smám saman við freistandi truflunum og umhverifsáreiti. Þannig ertu að þjálfa í mörgum litlum skrefum sem leiðir til betri lokaútkomu á æfingunni.

Mistök #3: Þú gefur of mörg og mismunandi merki

Eitt það erfiðasta í hundaþjálfun er að venja sig á það að biðja hundinn aðeins einu sinni um að gera eitthvað. Auðvitað er allt í lagi að endurtaka stikkorð aftur og aftur og aftur og aftur og… Vandamálið við það er að hundurinn lærir að þú ætlast ekki til þess að hann hlýði þér strax. Til að koma í veg fyrir þetta skaltu kenna hundinum það sem hann á að gera áður en þú bætir við stikkorði. Þegar þú bætir við stikkorði (til dæmis ,,sestu“), skaltu aðeins segja það einu sinni. Það er allt í lagi að hundurinn hlýði því ekki strax. Gefðu honum smá tíma til að hugsa málið og fatta hvað þú varst að biðja um, án þess að gefa honum neina vísbendingu. Ef þér finnst hundurinn ekkert skilja hvað þú ert að biðja um, ertu líklega að fara of geyst í hlutina (mistök #2).

Þá þurfið þið að gera æfinguna oftar áður en þú bætir stikkorðinu við. Það er annar hlutur sem mjög margir gera óafvitandi þegar þeir þjálfa hunda. Hundar eru mjög eftirtektarsamir og þeir fylgjast með hverri einustu hreyfingu sem þú gerir. Þeir fylgjast með höndunum þínum, fótunum og hreinlega öllum líkamanum. Þeir fylgjast mun frekar með líkamstjáningunni þinni en því sem þú segir við þá. Þetta leiðir til þess að þú gætir verið að kenna hundinum eitthvað allt annað en þú ætlaðir þér. Dæmi: Þegar þú kennir hundinum þínum innkall beygirðu þig alltaf niður í hans hæð.

Einn góðan veðurdag kallarðu svo á hundinn án þess að beygja þig niður og hvað gerist? Hundurinn skilur ekkert hvað þú ert að biðja um. Hann er ekki óhlýðinn eða þrjóskur. Hann einfaldlega skilur ekki hvað þú ert að biðja hann um að gera. Það gefur því augaleið að það er mikilvægt að vera meðvitaður um líkamstjáninguna sína á meðan maður þjálfar hunda. Gefurðu hundinum augljós merki? Passar þú að gefa ekki of mörg merki í einu? Notarðu alltaf sömu merki? Ef ekki, þá eru góðar líkur á að þú sért að gera hundinn þinn ringlaðan.

Mistök #5: Að verðlauna óvart hegðun sem þú vilt ekki sjá

Þetta vandamál er nátengt vandamáli #4. Gefurðu hundinum þínum misvísandi merki? Tekurðu stundum fagnandi á móti hundinum þínum þegar hann stekkur upp á þig en skammar hann fyrir það á öðrum tímum? Æfir þú taumgöngu en leyfir hundinum samt stundum að toga í tauminn? Ef svarið er já ertu líklega að verðlauna óæskilega hegðun sem þýðir að þessi óæskilega hegðun (sem þú vilt ekki) styrkist og heldur áfram. Ef þjálfarinn er ekki samkvæmur sjálfum sér verður hundurinn það ekki heldur.

Mistök #6: Að ætlast til þess að hundurinn hlýði, sama í hvaða aðstæðum hann er

Jafn erfitt og það er að sætta sig við það, þá erum við ekki alltaf það merkilegasta í lífi hundins okkar. Það getur sært þegar hundurinn velur frekar að þefa af illa lyktandi kúkaklessu, en að koma til okkar en hey, svona er þetta! Fullkomlega eðlilegt. Hundar finna lykt sem við finnum ekki. Þeir heyra hluti sem við heyrum ekki. Það er margt að berjast um athygli í heimi hundsins. Þetta á þó ekki að þýða að við getum ekki fengið hundinn okkar til að hlusta á okkur. Það þarf einfaldlega að þjálfa það. Við þurfum að kenna honum að hlusta. Byrjaðu að þjálfa hundinn í þægilegu umhverfi þar sem það er ekki mikið um truflanir. Þegar hundurinn verður betri og betri í að hlusta á þig og gera þær æfingar sem þú biður um, færir þú þig smám saman í erfiðara umhverfi. Mundu svo að því betri þjálfari sem þú ert, því betri nemandi verður hundurinn þinn.

Grein þýdd 29. október, 2015 af http://moderndogmagazine.com/articles/5-training-mistakes-you-re-probably-making/85112


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.